þriðjudagur, janúar 03, 2006

Svona byrjaði nýja árið hjá mér...

Við höfðum það gott á gamlárskvöld, fórum í mat til Lillý systur og Georgs, mannsins hennar. Hann er kokkur og hefur rosa gaman af því að elda góðan mat og halda veislur, enda var maturinn ekki af verri endanum, steiktur kalkúnn og svo kaffi og ostakaka í eftirmat. Við fórum heim um hálf ellefu, ég horfði á hið afspyrnu lélega áramótaskaup og stökk varla bros, á meðan Óskar lagði sig, því svo fór hann að vinna klukkan hálf tólf. Ég fór með honum niður á hótel og kyssti hann og knúsaði klukkan tólf...

<- Eysteinn "afi" og Lilla-Sibba

Svo rölti ég í heimsókn til sona minna, stutt að skreppa til þeirra beggja. Þeir höfðust þó ólíkt að, sá eldri passaði barnabarnið (já, hann er orðinn "afi" 33ja ára gamall, því konan hans, sem er 10 árum eldri en hann varð amma fyrir 17 mánuðum síðan) og var á leið í háttinn fljótlega með syfjað barnið.


Úlfur partýgæi->


Sá yngri átti von á partýgestum þá og þegar, sem voru þó ekki komnir, svo það var í lagi að mútta gamla kíkti inn til hans í smá stund áður en fjörið brast á. Var reyndar í fyrsta skifti sem ég kom til hans í þessa íbúð í sem hann býr í núna.

- Ég á sem sagt tvo syni í 101, smart, ekki satt? ;o)

Á nýja árinu hef ég haft hægt um mig, mest sofið, gónt á sjónvarp og dútlað mér hér í tölvunni. Var svo myndarleg að sjóða handa okkur ýsu og kartöflur í gær, nammi, namm, hvað það er alltaf góður matur, ekki síst eftir hátíðarmat, kökur og nammi; með ekta íslensku sméri út á, plús grænmetisblöndu úr frystinum með.

Í dag var svo útborgunardagur og brugðum við undir okkur betri fætinum skötuhjúin, eftir að Óskar var búinn að lúlla aðeins eftir síðustu vaktina í bili, og brunuðum í bankann að borga slatta af greiðlsuseðlum sem okkur höfðu borist og taka út skotsilfur handa okkur að eyða. Síðan var haldið niður í bæ, af því við vorum bæði sársvöng, þar sem við fórum á okkar uppáhaldsveitingastað sem heitir Shalimar og er í litlu húsnæði í Austurstræti (rétt hjá Kaffinu illræmda) Borðuðum þar dægilega fjórréttaða og vel kryddaða máltíð og ég fékk mér masala-chai á eftir, sem er alltaf frábært.

Núna er herrann úti að snúast og finna leiðir til að eyða meiri pening (reyndar bara í bílinn, jú reyndar í eftirjólagjöf handa mér líka, sem er miði á kór frá Tallin sem hann er ákveðinn í að ég eigi að fara og hlusta á af því ég hef svo gaman af svoleiðis, en tímir ekki að fara sjálfur, hehe, svo ég fer víst ein! ekki nema einhver vilji koma með mér?)

En nú ætla ég að fara og leggja mig smá, því ég er satt að segja eitthvað að drepast í öxlinni minni og ökklanum og reyndar út um allt, er eins og afgömul kelling í göngulaginu og pirruð og smá úrill eftir því. Ætli ég sé ekki bara búin að drekka of mikið af heilsuteinu (rauðsmára og mjaðjurtar) sem ég fékk í jólagjöf frá Úlfi, úr flotta leir-tekatlinum frá mömmu, sem ég óskaði mér frá henni, og taka of mikið lýsi og liðamín og LifePack, hugsa það, en sjálfsagt kemur jákvæð verkun í ljós ef ég þrjóskast við að halda þessu áfram.

Hmm, best ég láti hér fljóta með áramótaheitin mín, fyrst ég er komin út í þessa sálma á annað borð, kannski ég framfylgi þeim frekar ef ég aulýsi þau nógu rækilega - venjulega geri ég ekki nýársheit, en í ár gerði ég nokkur, aldrei þessu vant:

Sjö nýársheit sem miða að því að lifa heilbrigðu lífi :

1. Lesa fleiri bækur.
2. Hreyfa mig meira, helst að fara í gönguferðir úti í náttúrunni.
3. Teikna og mála með olíulitiunum sem Óskar gaf mér í jólagjöf.
4. Drekka jurta-te-in sem Úlfur gaf mér, brugguð í fína leir-tekatlinum frá mömmu.
5. Minna kaffi, minni sykur, minna tölvuhangs.
6. Hugleiða meira, hlæja meira, hafa minni áhyggjur, vera hamingjusöm!
7. Hætta að vera áhyggjufull vinnumús og vera hamingjusöm listamús - og saumakona :o)

Engin ummæli: