laugardagur, febrúar 11, 2006

Æ, ósköp er mig farið að lengja eftir að heyra eitthvað um hvernig umsókn minni til TR reiðir af, auk þess sem ég er að verða ansi leið á því að vera alltaf staurblönk og geta lítið hreyft mig vegna blankheita. Að vísu hef ég ekki enn fengið sent eyðublað frá TR, sem hlýtur að þýða að vottorðið frá lækninum hljóti að vera í vinnslu, að minnsta kosti ætla ég rétt að vona að hún hafi sent það inn á næstu dögum eftir að ég fór til hennar, að það hafi ekki lent oní skúffu hjá henni. Eftir minni reynslu er samt engum fullkomlega að treysta í slíkum efnum, svo trúlega fer ég að taka upp símann til að hringja og grennslast fyrir um málið.

Það er búið að vera ósköp milt og gott veður í dag, ég hef nú samt lítið aðhafst í dag annað en að slíta mig frá tölvubullinu áðan og rölta út í sjoppu eftir nammi. Svo er ég að fara að setja mig í stellingar að sauma dúkkuföt á allar sætu dúkkurnar sem ég hef sankað að mér úr Góða Hirðinum. Ég fór þangað síðast í gær (reyndar annan daginn í röð, en hafði þá ekki komið þar lengi) og keypti fullt af ódýru dóti sem mér fannst sniðugt, svona til að bæta mér upp blankheitin. Þar á meðal bókina í póstinum hér á undan.

Pabbi og mamma komu í heimsókn til mín á þriðjudag, svo flugu þau norður daginn eftir. Þau fá íbúðina sína afhenta 24. febrúar, þá verður mikið um dýrðir.

Mig langar til að skrá mig í dönsku í H.Í næsta vetur ef mér tekst að komast á þokkalegan fjárhagsgrundvöll til þess. Þá væri ég loks að taka til við námið sem ég ætlaði mér í fyrir 35 árum síðan, en ekkert varð úr. Ég sótti að vísu um það nám þriðja veturinn eftir stúdentinn, en neyddist til að draga þá umsókn til baka vegna óhagstæðra ytri orsaka. Ég varð að hætta við fjarnámið í Versó sem ég sagði frá hér áður af því ég átti ekki fyrir innritunargjaldinu, kannski var áhuginn heldur ekki stórkostlegur, fyrst ég lét það standa í veginum. En ég get ekki tekið námslán vegna þess að ég er á skrá sem kemur í veg fyrir lántökur, auk þess sem ég myndi aldrei biðja neinn um að skrifa upp á lán fyrir mig, til þess er ég komin með of mikla skömm á slíkum uppáskriftum.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Í TILEFNI VALENTÍNUSARDAGS, SEM ÉG KALLA BARA VINADAG:

Hvort sem við erum einmana, sjúk eða
ráðvillt, fáum við
umborið það allt, ef við aðeins vitum að
við eigum vini -
jafnvel þótt þeir geti ekki hjálpað okkur.
Það nægir að þeir eru til.
Hvorki fjarlægð né tími, fangavist né
stríð, þjáning né þögn
megnar að slá fölskva á vináttuna. Við
þær aðstæður festir hún einmitt dýpstar
rætur.
Upp af þeim vex hún og blómgast.

kveðja, Þorbjörg