fimmtudagur, mars 30, 2006

Ríka konan

Ég fattaði í gær að ég hefði fengið í fyrradag dágóða summu inn á reikninginn minn frá TR, greiðslur að því er virðist eitthvað aftur í tímann. Ég ekki veit annars ekki alveg hvernig í þessu liggur, þar sem ég hef ekki nennt að pæla mikið í þessum útreikningum, ég held að þetta sé útgreidd tekjutrygging aftur í tímann. Mjög líklega verð ég krafin um þetta aftur þegar ég fer að fá úr lífeyrissjóðnum mínum. Svo fæ ég líka smá pening 1. apríl (ekki plat), svo mín er bara rík þessa dagana og kominn tími til.
Í tilefni af því að runnir eru upp fyrir mér dýrðardagar ríkidæmis hugði ég mér náttúrlega gott til glóðarinnar að byrja að vinna að eyðingu þess, eða þannig sko - það stendur svo sem ekkert til að setja sig á hausinn - svo ég skundaði fyrst í Tiger í Kringlunni eftir að hafa losað fé úr banka og keypti mér 3 stk. sparibauka af ýmsum gerðum, sem sé eftirfarandi: 1 stk. grænan froskbauk, 1 stk. appelsínugulan kisubauk, 1 stk. lítinn bleikan sparigrís. Eftir það fór ég í - já, hvað annað - Góða hirðinn, og þar fékk ég einn sparigrís í viðbót, að þessu sinni úr brúnum leir og voða krúttlegan. Auk þess eitt og annað smálegt sem gladdi mitt litla og lúna hjarta. Rak svo augun í ansans ári góðan skáp þar sem ég lét taka frá og sæki á morgun, voða ánægð með það.
En þess ber að geta í sambandi við þennan verslunarleiðangur minn að ég keypti þó ekki eintómt glingur og óþarfa, heldur fór ég reyndar líka í Bónus og verslaði þar eitt og annað matarkyns sem kemur að góðum notum. Fór auk þess í sápubúð (LUSH - fresh, handmade cosmetics) og keypti 3 stk. af yndislegum og vel angandi sápum, svo nú kem ég ilmandi og dejlig úr sturtunni á næstunni.

Engin ummæli: