þriðjudagur, maí 16, 2006

Í gær...

...var ég aðeins að "bílstjórast" með Lillý systur. Við fórum mjög venjulegan rúnt fyrir þannig ferð, byrjuðum í Garðheimum, þar sem við keyptum báðar mold, ég til umpottunar á mínum pottablómum, sem er orðin tímabær, en hjá henni stendur til að sá til þess sem hún kallar "Rósalísu" og er fjölkrýnd "Iðin Lísa". Auk þess keypti ég mér pottanelliku, rauðfjólubláa og fallega, hún var ekki dýr, kostaði 550 krónur.

Svo var haldið í Dýraríkið á Grensásveginum, þar sem ég var nú bara að skoða en systir mín keypti sér 3 gullfiska til að halda selskap þessum eina sem orðinn var eftir í fiskabúrinu hennar. Núna þegar barnabarnið hennar er komið aftur heim frá Svíþjóð langar hana líka að hafa fleiri fiska í búrinu til að sýna drengnum.


Eftir að hafa keyrt Lillý heim aftur var kominn tími til að drífa sig vestur í bæ í yogatímann minn, svo kaffisopinn varð að bíða betri tíma. Þetta var mjög góður tími, Anna kenndi sjálf og hún er alveg yndislegur kennari, svo opin og gefandi, maður fær mikinn og góðan straum frá henni bara við að vera nálægt henni. Svo er hún dugleg við aðstoða og leiðbeina þeim sem eru eitthvað hægfara í æfingunum, sem mér líkar mjög vel við, og var ég ein þeirra sem naut góðs af þeirri elskulegu leiðsögn.

Engin ummæli: