fimmtudagur, maí 04, 2006

Næturhrollvekja...

Hvað er til ráða þegar ástin manns hrýtur svo undir tekur í húsinu alla nóttina, svo eyrnatapparnir nýkeyptu duga ekki til að deyfa hávaðann hvimleiða?
Það verður smá hlé og þú ert alveg að ná að dotta, þá upphefst skarkalinn enn á ný, auk þess sem þessi elska liggur og teygir úr sér á beðnum miðjum og færir sig ekki hvernig sem stjakað er við henni. Ástkonan kúrir örg í skapi úti á rúmstokknum, æ og ó. Eða dundar sér við að ráða krossgátu og kíkja í bók í eldhúsinu, sem er þó skárri kostur.
Vonandi lagast ástandið þegar maðurinn hættir að vinna tvöfalt, nætur og daga og sofa svo djúpum hrotusvefni sökum mikillar þreytu (það er reyndar nokkuð sem mér skilst að ég geri sjálf ef ég verð nógu þreytt). Að minnsta kosti skilst mér að þetta vinnubrjálæði muni brátt taka enda og törnin mikla sé að verða búin. Ég prísa mig sæla að vera ekki í vinnu og geta sofið út þegar mér sýnist, annars hefði verið illt í efni í morgun.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Las einhvern tímann húsráð um hrotur hjá maka, það er að taka golfkúlu og sauma í bakið á því sem elskhuginn sefur í, þannig að hann geti ekki sofið á bakinu ...
gæti virkað eða ekki .....

Lalla

Saumakona - eða þannig sagði...

Hmm, þú segir nokkuð...
Annars eru nú sem betur fer ekki allar nætur svona.