sunnudagur, júlí 30, 2006

Laugardagur til lukku

-> Úlla frænka, Lillý, Greta og Heiða í stofunni í Helgafelli, heimili föðurforeldra okkar í Hveragerði.

Í gær brá ég loks undir mig betri hjólunum og fór í Mosó og kíkti á litla frænda; sótti Lillý systur upp úr hádeginu og svo brunuðum við upp eftir.
Drengurinn er rosa sætur, en svaf rólegur allan tímann sem við stoppuðum. En sem betur fer fáum við að sjá þeim mun meira af honum vakandi síðar, ef að líkum lætur; ég hef fulla trú á að pilturinn hafi alla burði til að verða sprettharður í besta lagi.
Því miður var stóra systir hans lasin og heldur stúrin, greyskinnið, hún verður líka sprækari næst, skulum við vona. Svo hittum við líka ömmuna, en hún er stödd hér fyrir sunnan þessa dagana.
Ég átti nú ekki von á veislu þó ég skryppi í heimsókn, en við fengum þessar fínu veitingar, girnilegan pastarétt og þetta fína salat og bollur með, nammi namm.

Þessi mynd af okkur, þessum sömu systrum og foreldrum okkar var tekin í garðinum hjá Heiðu sumarið 2003 ->

Á eftir kíktum við Lillý og Ragna svo á langafann og -ömmuna, þau voru sæl með sig að vanda og voru að sóla sig á nýja sólpallinum sínum þegar við komum. Heiða systir kom líka, með Dagmar, dótturdóttur sína með sér, svo þá vantaði bara Evu til að systraskarinn væri allur saman kominn. Við fengum hina klassísku og alltaf-jafn-góðu eplaköku móður minnar með kaffinu. Svo þurftum við að drífa okkur heim svo Lillý gæti smurt nesti handa eiginmanninum sínum, áður en hann færi á vaktina. Þetta var skemmtilegur dagur!

Engin ummæli: