
Þetta er þétt mynd í flesta staði. Þó má alveg krukka í handritið, það er að segja söguþráðinn, út frá skynsemissjónarmiði (en það er nú að vísu svo í flestum, ef ekki öllum sakamálamyndum): Lítil stúlka annast heilaskaddaða móður sína í afdalakoti frá 5 ára aldri, með aðstoð 2ja karlmanna sem vinna í virkjun á næstu grösum. Halló? Ég spyr nú bara eins ýmsum er tamt að spyrja þegar hneyksli komast upp úr dúrnum: Hvar voru félagsmálayfirvöld, sváfu þau fullkomlega og staurblind á verðinum? :)
Hins vegar er ég fullkomlega sátt við draugaganginn í myndinni út frá þessu sama sjónarmiði: Draugagangur í bíómyndum er alltaf til bóta, getur meira að segja komið sér þar mjög vel og bjargað mörgu við. Það er að segja svo fremi að hann (draugagangurinn) sé ekki framleiddur í USA. Þar í álfu virðast menn ekki þekkja til alvöru drauga, svo í myndum þaðan ættuðum eru þeir alltaf alveg svakalega illir, sem er mjög einhæf og ósanngjörn lýsing á draugum.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli