fimmtudagur, janúar 11, 2007

Köld slóð

Ég steingleymdi að skrifa um álit mitt á þessari mynd, þannig að ég ætla bara að láta Hrafn Jökulsson um að segja hvað mér fannst um hana HÉR, þar sem ég er fullkomlega sammála umsögn hans.
Þetta er þétt mynd í flesta staði. Þó má alveg krukka í handritið, það er að segja söguþráðinn, út frá skynsemissjónarmiði (en það er nú að vísu svo í flestum, ef ekki öllum sakamálamyndum): Lítil stúlka annast heilaskaddaða móður sína í afdalakoti frá 5 ára aldri, með aðstoð 2ja karlmanna sem vinna í virkjun á næstu grösum. Halló? Ég spyr nú bara eins ýmsum er tamt að spyrja þegar hneyksli komast upp úr dúrnum: Hvar voru félagsmálayfirvöld, sváfu þau fullkomlega og staurblind á verðinum? :)
Hins vegar er ég fullkomlega sátt við draugaganginn í myndinni út frá þessu sama sjónarmiði: Draugagangur í bíómyndum er alltaf til bóta, getur meira að segja komið sér þar mjög vel og bjargað mörgu við. Það er að segja svo fremi að hann (draugagangurinn) sé ekki framleiddur í USA. Þar í álfu virðast menn ekki þekkja til alvöru drauga, svo í myndum þaðan ættuðum eru þeir alltaf alveg svakalega illir, sem er mjög einhæf og ósanngjörn lýsing á draugum.

Engin ummæli: