
Í kvöld sá ég á vegum
Kvikmyndasafns Íslands í Bæjarbíói í Hafnarfirði hina frægu, ítölsku kvikmynd
La Strada. Hún er ein þeirra stórkostlegu, sígildu mynda sem hægt er að horfa á aftur og aftur.

Fyrir myndina fór ég á tónleika í
Hafnarborg, þar sem leikin var tónlist eftir
Nino Rota, tónskáldið sem samdi tónlistina við La Strada og var sú tónlist flutt, í formi svítu sem hann byggir á stefjum úr henni og tónlist sem hann samdi við aðrar myndir Fellinis, ásamt fleiri verkum eftir hann. Kammersveit Hafnarfjarðar spilaði undir stjórn hins aldna, ítalska hljómsveitarstjóra Michele Marvulli, sem var vinur og samstarfsmaður Rota, og ítalski píanóleikarinn og Íslandsvinurinn
Domenico Codispoti lék glæsilegan konsert fyrir píanó og hljómsveit í e-moll sem nefnist "Smái forni heimur" (Piccolo Mondo Antico). Hann tók einnig þátt í flutningi ballettsvítunnar "La Strada", sem Marvulli hafði útsett sérstaklega fyrir kammersveitina. Skemmtilegir og einstæðir tónleikar, í samstarfi
Hafnarfjarðarbæjar og
Stofnunar Dante Alighieri við
Listahátíð 2006.
Ljósmyndin hér fyrir ofan er af Nino Rota

Ég sé dálítið eftir því að hafa ekki getað farið og hlustað á
búlgarska kvennakórinn Angelite, sem ég er viss um að hefði verið mikil upplifun, en það er víst ekki hægt að fara og sjá og hlusta á allt, því maður verður víst líka að kaupa sér í matinn! Kannski gefst mér tækifæri einhvern tíma síðar til að hlusta á þær. Alla vega ætla ég að ná mér í geisladisk með þeim, svo mikið er víst.
Ég horfi líka alveg örugglega ef RÚV hefur tekið upp þátt með þeim (sem ég á fastlega von á að hafi verið gert), sem maður getur þá átt von á að fá að sjá í haust eða næsta vetur.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli