laugardagur, nóvember 12, 2005

Vá, þetta var eiginlega dálítið undarlegur dagur, rétt byrjaður þegar hann var búinn; svona fara þeir að verða fleiri (hjá mér alla vega) með vaxandi skammdegi. Við gerðum nokkuð fyndið í dag: Drifum okkur út í Hagaskóla ásamt fullt af fleiru fólki og svöruðum 50 spurningum úr öllum áttum skriflega á 25 mínútum. Freistuðum þess að verða Meistarar Íslands á Stöð2. Ekki held ég að við eigum mikinn sjéns, hvorugt okkar, ætli við höfum ekki haft svona 50% rétt í heildina bæði tvö. Til dæmis var ég svo vitlaus að álíta að Pablo Picasso (official site) (P.P.- Wikipedia) hefði ekki verið búinn að mála tímamótaverkið Les Demoiselles d´Avignon árið 1907, hélt hann hefði fyrst farið á skrið svona 1912. Svo ég hætti við að skrifa Picasso og sagði Toulouse-Lautrec, sem gerði svo sem engin tímamótaverk, þó hann hafi málað dansmeyjar í kabarettum og lauslátar konur kallanginn og dáið síðan 36 ára 1901, svo ekki var hann nú sennilegri en Pablo, sem var bráðungur árið 1907, eða 26 ára, fæddur 1881. Ergilegt, svona er maður nú vitlaus stundum, maður fattar einhvern veginn ekki að þessir kallar, bæði uppáhaldið mitt hann Charlie Chaplin (fæddur 1889, en hann dó víst 1977 en ekki 1988, það átti ég þó að vita, nýbúin að horfa á mynd á RÚV um síðustu æviár hans í Sviss) og Picasso, skuli hafa verið fæddir ekki á síðustu öld, heldur á öldinni þar áður og fyrir 1890, á undan öfum mínum og ömmum. Hef þá afsökun fyrir fáfræði minni að ég hef svo sem aldrei verið neitt sérstaklega hrifin af Picasso, mun hrifnari af mörgum öðrum af þessum frægustu málurum. - Og ýmislegt fleira rugl setti maður á blað, eins og til dæmis að staðsetja Kabúl (Bakú) í Azerbaídzjan og Darfúr í Eþíópíu (Súdan), og fleira sem ekki er einu sinni vert að minnast á hér. Annað hreinlega vissi maður ekki, til dæmis hver væri höfundur Blikktrommunnar (Günter Grass) o.fl. o.fl., svo augljóslega er maður nú ekki efni í neinn meistara, þó 5 millur séu í boði. En það var gaman að prófa (og sjá svart á hvítu hvað maður er orðinn minnislaus, óeftirtektarsamur og ónákvæmur í því sem maður þó tekur eftir!).
Svakalegt að sjá í fréttunum konuna sem festist með barnakerruna sína, með barninu í, í dyrum neðanjarðarlestarinnar í London. Púff, oft hefur maður nú verið smásmeykur að svona gæti gerst, en alltaf hugsað, ja nei hvaða hýstería maður. En semsé er það enginn hystería, því þetta gerðist! Sem betur fer slasaðist enginn alvarlega, en greinilega margir í sjokki og auðvitað aumingjans konan sem lenti í þessu mest og svo konan sem hljóp til og hjálpaði henni að losa barnið en dróst svo líka með lestinni. Hryllingur, lestarstjórinn greinilega ekki að fylgjast með og bara sofandi í vinnunni.
Hæ Þorbjörg!:

Hér er mynd af uppáhaldinu mínu, Sir Anthony Hopkins!
Hér er síða með traileum úr myndum sem hann hefur leikið í, hér er líka einn góður: Hearts in Atlantis. Og hér eru trailerar úr nýjustu myndunum hans: The World´s fastest Indian og {proof}.
Þetta er aðdáandasíða um Sir Hopkins
Meira: Star pulse síða um Sir Anthony, þar eru fleiri trailerar.
Og hér er loksins ein góð síða sem ég fann: The Filmography of Anthony Hopkins, með official sites trailerum og öllu!
IMDb listi yfir myndir
Sir Philip Anthony Hopkins er steingeit, f. 31. desember, 1937.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Jabb, hann er svakalega góður leikari og í miklu uppáhaldi hjá mér, hann Anthony Hopkins, einn af þeim sem verða alltaf betri með aldrinum. Það sem við vorum eiginlega meira að spá í var hverjir væru mest sexí, en þessar elskur sem ég var að tala við, vildu nú meina að enginn yfir 30 gæti verið sexí, þær eiga eftir að læra, að það er eins með karlmenn og góð vín, verða bara betri með aldrinum. Þessi er svona mesta dúllan mín http://downeyunlimited.com/, alla vega af þeim í yngri kantinum. Get hins vegar ekki séð neitt sexí við t.d Robbie Williams sem þær eru að slefa yfir, finnst hann álíka sexí og þorskur í andarslitrunum, sko sumir menn bara hafa þetta og aðrir ekki. En í sambandi við góða leikara, þá hef ég stundum verið að spá í að það er oftast eins og leikkonur séu bara búnar á vissum aldri, en aftur karlkyns leikarar virðast margir verða betri með aldrinum. Er þetta útlitið eða hvað er í gangi þarna ? Jæja, er búin að skrifa hálfa ritgerð hérna, en hvað varstu að segja, færðu einhvern heling af auglýsingum yfir þig ef þú færð ekki mörg komments ??? Þá get ég párað svona 1 - 2 orð nokkrum sinnum á dag, til að losa þig við það.
Kveðja, Þorbjörg

Saumakona - eða þannig sagði...

Mér finnst Anthony sexý! (Þó hann sé ekki ungur) Það gera augun og röddin.
Mér finnst líka Depardieu flottur, hann er með fallegustu rödd sem ég heyri. Fyrir mig hefur röddin mikið að segja, þoli t.d. ekki skrækróma karlmenn, nú eða nefmælta, eins og þeir séu alltaf kvefaðir!