föstudagur, janúar 27, 2006

myspaceJæja, kannski ég skrifi eitthvað smá, fyrst ég er ekki sofnuð. Kannski ekki von að maður sofni strax þegar maður sefur fram að hádegi og leggur sig svo líka á daginn, ekki er víst hægt að sofa endalaust, eða hvað? Las í dag bloggið hennar Helgu Soffíu, eitthvað kannaðist ég nú við sjálfa mig í því sem hún skrifaði um svefnvenjur sínar, gott að maður er ekki einn um þetta.
Gerði mest lítið í dag, man ekki einu sinni hvort það varð nokkuð af því að klæða sig, alla vega kom ég mér aldrei sturtu yfir daginn, jahénna hvað maður er sljór þessa dagana. En ég er víst ekki alveg ein um það þessa dagana, ég held að veðrið núna, rigning og dumbungur, hafi þessi áhrif á fólk.
Afrekaði þó í gær að fara upp í Breiðholt og snúast í búð með mömmu og pabba í Spönginni, svo brunuðum við niður í Krónuna í Húsgagnahöllinni, þar sem Úlfur systursonur er nýtekinn við sem verslunarstjóri og fengum kassa fyrir mömmu, svo hún gæti haldi áfram að pakka. Úlfur var í mat þegar við komum, en voða sæt og hjálpsöm stelpa reif upp úr slatta af kössum sem verið var að taka upp úr svo við gætum fengið þá, þetta voru voða fínir kassar af alveg passlegri stærð.
En það er nú meiri orkan og athafnagleðin í þeirri gömlu, kominni yfir áttrætt, maður er oft alveg forviða á henni og óskar sér að maður hefði svona helminginn af kraftinum hennar. Það er ekki aldeilis verið að slá neitt af á þeim bænum, þó aldurinn segi til sín. Það sem er farið að há henni núna er að sjónin er farin að bila, en að öðru leyti er hún alveg ótrúlega hraust. Pabba blessuðum fer aftur á móti hægt og rólega aftur, hann hefur aldrei náð sér alveg eftir slysið fyrir núna bráðum níu árum síðan, samt furða hvað hann hefur þó náð sér á strik, en hann er samt sem áður að verða ansi mikið gamalmenni.

Engin ummæli: