laugardagur, janúar 28, 2006

Ég hef satt að segja áhyggjur af einni frétt sem var sögð í fréttatíma RÚV í kvöld, eða öllu heldur því sem hún fjallaði um, sem var að hin vinsælu iPod tæki, sem allir unglingar þrá að eiga nú til dags, geti valdið alvarlegum skaða á heyrn, jafnvel við litla notkun.
Ömurleg sú tilhugsun ef heil kynslóð af fólki, eða alla vega sá hluti hennar sem býr við okkar dásömuðu tæknimenningu, á eftir að ganga um hér á jörðinni heyrnarsköðuð ævina út eftir notkun á svona litlu og ómerkilegu tæki.

Annars er þetta búinn að vera mjög skemmtilegur dagur hjá mér, því ég fór með Óskari og Höskuldi vini hans að horfa á nemendasýningu hjá Heilsudrekanum í Ráðhúsi Reykjavíkur, en Óskar hefur verið í tímum þar núna í janúar. Því ég gaf honum reyndar mánaðarkort þar í jólagjöf, þar sem ég vissi að það var ein af hans heitustu óskum, enda er hann mjög áhugsamur og duglegur að sækja tíma og líka að æfa sig utan þeirra. Hann var beðinn um að vera með í sýningunni, en treysti sér ekki að vera með strax, þó mér finnist reyndar hann vera orðinn ótrúlega góður miðað við þann stutta tíma sem hefur æft. En hann ætlar að vera með næst þegar verður sýning.

Þetta var rosaflott sýning og sérstaklega gaman að sjá hvað litlu krakkarnir voru duglegir og liðugir í þessu. Það voru sýnd þarna alls konar afbrigði af kínverskum æfingum sem ég kann ekki að nefna, aðrar en Tai Chi og Wu Shu. Gaman líka að sjá elsta fólkið sem er þarna í Tai Chi og gæti ég alveg hugsað mér að fara að læra. Var reyndar byrjuð í því fyrir rúmum fimm árum síðan, þegar ég veiktist og varð að hætta, en það var reyndar austrænn gestakennari sem kom þar (ég var ekki í Heilsudrekanum) sem tók fyrst manna, og áður en ég vissi sjálf að það væri neitt að mér, eftir því að ég væri eitthvað ekki í lagi, því henni fannst ég titra svo óeðlilega við að gera æfingarnar. Stuttu seinna var ég svo send úr vinnunni í skoðun og þá kom ýmislegt óskemmtilegt í ljós.
Pálína í Bláa Geislanum var að vísu líka sumarið áður búin að benda á brjóstið á mér og segja að það væri eitthvað að þarna, en ég gerði svo sem ekkert með það og vissi svo sem ekkert hvað það ætti að vera. En nóg um það...

Eftir sýninguna fengum við okkur svo kaffi og köku í kaffistofunni í Ráðhúsinu, svo langaði okkur til að skoða Sögusýninguna í Perlunni, en við vorum það seint á ferð að við tímdum ekki að kaupa okkur inn fyrir 900 krónur á mann til þess að geta skoðað í þrjú kortér. Það tekur miklu lengri tíma en það að skoða þessa sýningu, svo við ákváðum að koma síðar þegar við hefðum betri tíma. En áhuginn á þeirri sýningu vaknaði við það að ég var að móttaka bók sem ég pantaði á Amazon.com, sem heitir "Designing the Doll" og er alveg æðislega flott, með myndum af brúðum sem eru hver annarri flottari og algjör listaverk.

Svo keyrðum við Höska heim og hann bauð okkur upp á mexíkóskt kaffi, sem er neskaffi með heitri mjólk, eða café au lait upp á frönsku.

Núna er ég hér ein í stofunni því Óskar lagði sig áður en hann fer að vinna í kvöld. Horfði á Söngvakeppnina, engin flott lög í kvöld, því miður, og Spaugstofu sem var heldur ekki spes og er svo að dúllast hér í tölvunni þangað til Óskar vaknar og ég keyri hann niður á hótel, svo ég hafi bílinn í fyrramálið, því mig grunar að ég þurfi að mæta þá í morgunmatinn. (En svo reyndist nú samt ekki, svo ég sæki hann bara þegar hann er búinn.)

Engin ummæli: