sunnudagur, apríl 30, 2006

Púff...


Ég datt inn í "shopping spree", missti mig í kaupæði, í þessari viku...nokkuð sem fjárhagur minn leyfir strangt til tekið ekki; nánar tiltekið keypti ég:

1 FLOTTUR kjóll frá Coast í Smáralind.

2 flottir bolir, annar frá Coast og hinn frá Whistles í Kringlunni.

2 gallabuxur, aðrar lummulegar og bara af því þær voru ódýrar í Debenhams, þess vegna þær seinni, en þær eru smart, buxur frá Esprit úr SHARE í Kringlunni; þessar einu sem ég átti fyrir fara nefnilega bráðum að detta í sundur. Og svo var ég reyndar líka að uppgötva í gær að kvartbuxurnar mínar frá því í fyrra eru orðnar svo þröngar á mig að ég get rétt með herkjum troðið mér í þær. Súkkulaðibindindi?

2 pör flottir skór, aðrir rauðir bandaskór frá Roberto Vianni, keyptir í Debenhams og hinir æðislegir skór eins og á myndinni frá Bronx Shoes sem ég sá í
GS skór í Kringlunni og bara VARÐ að kaupa.

Jæja, en lengra er syndaregistrið ekki, þetta er nú samt alveg nóg; en ég er að farast úr lukku með þessi innkaup, svo þetta er víst bara allt í lagi. Auk þess fór ég í litun og klippingu og borgaði 2000 kall í gjöf handa gamla menntaskólanum mínum, plús matur og djamm fyrir tvo þann þrettánda maí næstkomandi, sem ég gef ekki upp hvað kostar. Dýr vika!

P.s. Þessari vísu um íslensku eyðsluklóna rændi ég úr blogginu hans Skúla Páls. Þó ég sé reyndar ekki með yfirdráttarheimild neins staðar, þá stemmir restin:

Að eyða ekki um of er mitt mottó
nema ef ég sé eitthvað flott, ó!
Þá yfirdrátt tæmi
og ofsavel kæmi
sér einnig að vinna í lottó!

Svo mætti líka kíkja á þetta, þó svo ég skilji ekki helminginn, þar sem ég hef nú aldrei getað talist til fjárfestingarljóna.

2 ummæli:

Dúa sagði...

13. maí? Djí hvaða skóla?
Djamm Í Iðu?

Saumakona - eða þannig sagði...

Menntaskólinn við Harmahlíð, útskrift 1971 (believe it or not).