þriðjudagur, apríl 25, 2006

Úr "handan" heimi...

Mig dreymdi skrítinn draum í nótt. Mig dreymdi að skáldið sem ég bjó með á Sauðárkróki í 4 ár og dó seinast liðið haust, fékk leyfi til að vera í veraldlegum líkama í einn dag til að vera hjá mér og dóttur sinni. Þetta virtist mjög raunverulegt, því ég gat þreifað á honum og fundið að þetta var áþreifanlegur líkami sem hann var í. En aftan á hálsinum ískaldur blettur, þannig vissi ég að þetta var líkami sem var búinn til fyrir einn dag, svo við gætum séð hann. Hann var glaður og kátur og leið vel, miklu betur en á meðan hann lifði. Svo spurði ég hann hvernig væri þarna hinum megin, því meðan hann lifði gerði hann frekar grín að "nýaldarpælingum". Þá brosti hann bara stríðnislega og svaraði ekki, og ég flýtti mér að segja "já, já, auðvitað, þú mátt ekki segja mér neitt frá því!" Ég fann á öllu að honum líður vel þarna og var bara kominn til að láta okkur vita það og líka til að reyna að hjálpa okkur svolítið. Ég fann að þarna fyrir handan lifir hann í fullum styrk, en í þessu lífi var ýmislegt sem varnaði honum þess. Góður draumur!

Núna áðan hringdi ég í Yogastöð vesturbæjar og pantaði tíma í "mjúkt" yoga, ég sá þessa stöð auglýsta í Mogganum í gær og fékk góða tilfinningu fyrir henni. Það er Anna Björnsdóttir, sem mér finnst ákaflega geðug kona, sem rekur hana. Svo dreif ég mig líka og pantaði klippingu og strípur á morgun, svo ég geti verið fín um hárið þegar við 35 ára stúdentar úr MH hittumst 13. maí.

Ég sá í Mogganum í gær að í dag var jarðsettur miðillinn sem ég var á námskeiði hjá fyrir tveimur árum síðan. Lítið grunaði okkur þá að hann yrði ekki langlífari en þetta. Ég vissi að hann var búinn að berjast við krabbamein síðustu mánuði og svo dó hann sem sagt núna 17.apríl. Undarlega líf. Það er styttra á milli heima en okkur grunar, landmærin eru ekki eins skörp og við höldum.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sæl. Rakst á bloggið þitt í gegnum Hörpu Hreins. Verð bara að kommentera á þennan draum, hann er svo merkilegur. Það merkilegasta er, að mig hefur dreymt næstum nákvæmlega eins draum. Hversu skrýtið getur lífið orðið? Og af einskærri forvitni: Hvaða miðil var verið að jarðsyngja?
Með kveðju og þökk fyrir skemmtilegt blogg!
Guðný Anna (www.blog.central/gaa)

Saumakona - eða þannig sagði...

Takk fyrir þetta komment. Miðillinn heitir Sigurður Geir Ólafsson.