miðvikudagur, apríl 26, 2006

Rán...

Þessu rændi ég úr blogginu hennar Hildigunnar, sem ég fann í gegnum komment hjá Hörpu. Frábært!

Ég sé að í gleði minni yfir vellíðan gærdagsins þá gleymdi ég alveg að segja frá heimsókn minni til "hné"taugalæknisins. Hann sá sem sagt í stuttu máli ekkert óeðlilegt við rannsókn, það er að segja í viðbrögðum við mælingu á taug- og vöðvastyrk, eða eitthvað svoleiðis, því ég var svo sem ekkert að yfirheyra hann um rannsóknaraðferðina og hann er greinilega ekki einn af þeim læknum sem elska að fræða sjúklinga sína. Þeir eru það reyndar fæstir, hefur mér virst, þess vegna verður maður svo kátur þegar maður rekst einstaka sinnum á þannig eintak úr stéttinni. Hann mælti hins vegar með bæklunarlækni sem hann sagði mjög færan og borga sig að bíða eftir tíma hjá honum, þó hann sé umsetinn. Því það er hann svo sannarlega, því ég má hringja eftir 10. maí til að panta tíma hjá honum. En þangað til ætla ég bara að hamast sjálf á hnénu mínu með rafmagnsnuddtækinu mínu sem ég keypti einu sinni í Þumalínu, búðinni hennar Huldu ljósmóður og hefur virkað ansi vel hjá mér að nota og nudda það líka með Felden-geli, það virkar líka vel. Annars verð ég að segja að ég er orðin mun betri síðan ég hætti öllu vinnubrambolti, þó ég fengi þetta slæma kvalakast núna síðast kringum páskana.

Önnur stórtíðindi eru þau að mér barst í pósti í fyrradag skírteini um það að ég er öryrki til september 2018, það er að segja þangað til ég verð löggilt gamalmenni, mér finnst það bara frábært og léttir satt að segja af manni ýmsum áhyggjum að fá að vera á vissan hátt stikkfrí í samfélaginu. En ég hef nú reyndar hugsað mér að skoða hvaða sjálfboðastörf eru til hjá Rauða Krossinum fyrir konu eins og mig, svona til að sitja ekki algjörlega auðum höndum, eða þannig, því vitanlega finn ég mér meira og minna eitthvað til að brasa við og dúllast hér á heimaslóð. Eins er ég nú lengi búin að vera á leiðinni hingað til að bjóða fram krafta mína.

Hér er sagt frá ansi álitlegri bók um það að komast út úr þunglyndi, rakst á þennan tengil þegar ég var að leita að einhverju um Huldu.

2 ummæli:

Mo'a sagði...

Very interesting post. I do hope that you won't have knee problems.
I think that Katie Byron does have a good idea. Did you read her book?
I love the Muppet Show Clip....made my day :)

Saumakona - eða þannig sagði...

Ég vona líka að þetta fari að lagast, svona hægt og rólega.
Ég hef ekki lesið bókina hennar Katie Byron, en hefði alveg áhuga á að gera það. Hún er sennilega til á bókasafninu.