miðvikudagur, apríl 19, 2006

Það stendur mikið til...

Ég var svo heppinn að geta fengið flýtt tímanum hjá "hné"lækninum og fór í gærmorgun til hans og á að koma aftur á mánudaginn kemur, hann ætlar að finna eitthvað út úr þessu. Annars er mig farið að gruna að það sé í ökklanum en ekki eyranu, nei afsakið, hnénu sem orsök vandans liggur...að minnsta kosti voru minnkuð taugaviðbrögð þar, en fín í hnénu.

Og stórfrétt: Ég er byrjuð að lesa bestu bækurnar úr "ólesna" bókasafninu mínu. Núna er ég að lesa bók sem heitir "Á fáförnunum vegi - áleiðis til andlegs þroska" (Further Along the Road Less Traveled) eftir dr. M. Scott Peck, geðlækni með meiru, til dæmis var hann einn af stofnendurm F.C.E. (Foundation for Community Encouragement). Svo hef ég verið að lesa smávegis í einni af Skruddunum hans Ragnars, afa míns, það er alltaf gaman að glugga í þær og hollt fyrir nútímafólk að anda að sér andblæ horfins tíma í gegnum þjóðlegar frásagnir. Afi var mjög skemmtilegur og vel gefinn maður, mikill ferðagarpur, sem ferðaðist um landið þvert og endilangt og safnaði í sarpinn miklum fróðleik bæði um landið sjálft og fólkið sem í því bjó, munnmælum og vísum sem hann skráði niður í þrjú hefti eða bækur, sem hann kallaði því yfirlætislausa nafni "Skrudda", I, II og III. Þær fást held ég stundum ennþá á fornsölum og eins eru þær til á bókasöfnum landsins, hafi einhver áhuga. Eins má sjá nafns afa getið í ýmsu sem tengist byggðasöfnum landsins, en hann var ötull forvísgismaður að tilurð margra þeirra, svo og í ýmsu sem tengist ræktun og garðyrkju, en á því sviði var hann einnig einn af frumkvölum þessa lands.

Hins vegar er ég (sem betur fer) algjörlega búin að missa áhugann á spjallrásunum sem ég hef stundað að undanförnu, (Málefnin.com, Alvaran.com), mér finnst of mikið þar af sama fólkinu að segja sömu hlutina upp aftur og aftur. Þó það sé að vísu oft gaman að bullinu í honum Ingimundi Kjarval, sem er svei mér þá skásti ruglukollurinn þarna, þó hann hafi einkennilegar skoðanir á mörgu, eða kannski einmitt þess vegna. Og hann skrifar þó að minnsta kosti undir fullu nafni, því það er annað sem manni fer að leiðast á svona síðum og það er að spjalla þar við eintóma nafnleysingja, sem ætla meira að segja hreint að ærast ef þeim virðist einhver hætta á að einhver komist að þeirra rétta nafni; hvers vegna fæ ég ekki skilið, nema það sama fólk sé með eitthvert óhreint mjöl í pokahorni hjá sér eða eitthvað annað sem ekki þolir dagsljósið.

Engin ummæli: