þriðjudagur, maí 09, 2006

Í dag...

...náði ég í pabba og mömmu út á flugvöll, þau voru að koma frá Akureyri, þangað sem þau fóru af því verið var að halda upp á 80 ára afmæli móðurbróður míns sem er á ellimannaheimili á Ólafsfirði, í hjólastól og mállaus eftir heilblæðingu, en syngur með af hjartans list ef einhver tekur sig til að byrja á því og líka með þættinum hans Hemma Gumm, skilst mér. Kallanginn hefur alltaf verið hinn elskulegasti frændi, dagfarsprúður með afbrigðum edrú, en afspyrnu leiðinlegur fullur, því þá aðhylltist hann að sýna af sér mannalæti sem voru honum annars víðs fjarri. Minnist ég hans í landlegu, syngjandi svo undir tók í eldhúsinu okkar á Langholtsveginum, það var ekki mjög gaman, Gúbbit. En, eins og ég segi, annars hinn besti maður og ávallt afskaplega þakklátur fyrir allt sem fyrir hann var gert, hversu lítið sem það var, til dæmis táraðist hann nánast við það að fá sokkapar í jólagjöf frá unglingnum, frænku sinni, sem fannst tilheyra að gefa honum eitthvað líka eins og öðrum sem eyddu jólunum á heimilinu.
Jessörí, Sigurmon og Evelyn.

Engin ummæli: