sunnudagur, maí 14, 2006

Prófgráðan góða!

Það var mjög gaman í gærdag og gærkvöld, að hitta alla gömlu skólafélagana. En í framhaldinu er ég nú ákveðin í að skrá mig í dönsku í Háskóla Íslands og reyna að druslast til að klára B.A. próf, svo ég og aðrir geti farið að hætta að vorkenna mér að hafa aldrei lokið neinu háskólaprófi (nema auðvitað fílunni, sem ég er reyndar með tvöfalt próf í!).

Eða ætti ég kannski frekar að skrá mig í listfræði, sem ekki var kennd á sínum tíma hér heima og ég hafði hugsað mér að fara til Frakklands til að læra (og einni ónefndri bekkjarsystur minni fannst reyndar sprenghlægileg hugmynd!)? Eða í frönskuna, sem alltaf fer í taugarnar á mér að geta ekki talað reiprennandi? Eða, eða, eða?

- Ætli það sé ekki út af þessu "eða" sem ég hef aldrei klárað nein próf eftir stúdentspróf nema fíluna og svo sjúkraliðann. Ég stóð mig að vísu vel á prófum sem ég tók þennan eina vetur sem ég var í fjarnámi í Fósturskólanum ´95-96. Því neyddist ég til að hætta, án þess að ég tíundi í smáatriðum hérna hvers vegna, fyrst og fremst réð því slakt heilsufar og fjárhagur, en áhuginn á því að verða leikskólakennari nú víst heldur ekki sérlega mikill, ég fór víst mest í þetta vegna þess að þá var ekki enn farið að bjóða upp á annað í fjarnámi (sem sýndi sig nú samt að ég hefði ekki endilega þurft að velja. En ansi oft finnst mér kostir hafa boðist eftir að ég hefði hugsanlega haft áhuga á að nýta mér þá, til dæmis var stofnaður háskóli á Akureyri stuttu eftir að ég flutti þaðan!) Líka gekk mér ágætlega í framhaldsnámi í geðhjúkrun fyrir sjúkraliða vorið ´95, sem var þó því miður dæmt af mér 6 árum síðar, þó svo ég hafi tekið próf fyrir norðan í tveimur aðalkennslugreinunum og Sjúkrahús Skagfirðinga tekið það gilt og látið gott heita þó vantaði einingar upp á og Landspítalinn einnig. Það var ekki fyrr en ég réð mig á Grensásdeild, sem þá tilheyrði Borgarspítala, sem farið var að garfa í sannleiksgildi prófgráða minna, í sparnaðartilgangi! Þessu námi var nefnilega ekki að fullu lokið í öllum greinum hjá mér, vegna kennaraverkfalls sem setti stórt strik í minn reikning, þar sem ég hafði lagt í það af vanefnum að fara frá Sauðárkróki suður til Reykjavíkur til að taka þetta nám. Skilaboð þess efnis að þessu yrði ekki hnekkt fékk ég símleiðis frá skrifstofu fagfélagsins míns þegar ég dvaldi í vikutíma á Rauðakrosshótelinu við Rauðarárstíg meðan ég var að jafna mig eftir legnámsaðgerð vegna krabbameins. Hrópaði nú ekki beinlínis húrra fyrir þessum úrskurði, heldur man ég að öllu heldur rak ég upp öskur, sem kallaði þó sem betur fer engan til, svo líkast til heyrði það enginn! En síðan hef ég ekki haft geð í mér að leita til sjúkraliðafélagsins með eitt eða neitt, kannski má kalla það fyrirtekt og þvermóðsku, en bara! Hafði heldur ekki geð í mér í miðju veikindabaslinu til að fara og taka tilskildar einingar sem upp á vantaði til að fá þetta metið, þar sem þetta nám hækkaði ekki launin um meira en sem nam tvö þúsund krónum eða þar um bil, enda var það ekki launalækkunin sér í lagi sem mér sveið, heldur nánasahátturinn gagnvart starfinu sem ég innti af hendi. - Einhver próf tók ég síðla árs ´71 í félagsfræði og á sama tíma ´02 í guðfræði, niðurstöður þeirra voru nú heldur ekkert til að hrópa húrra fyrir. Nú jæja, svona hefur þetta meira og minna gengið til í mínu lífi; lífið er jú oft svo seyrt og kalt!

- Fyrir utan þá ástæðu að hafa á sínum tíma valið mér eiginmann sem fannst það algjört aukaatriði hvort mér tækist að klára eitthvert nám á þessum árum? Eða var að minnsta kosti ekki tilbúinn að fórna neinu til þess að svo mætti verða, vegna þess að, eins og hann sagði, "ég er fyrirvinnan"; samt vann ég oftast fulla vinnu utan heimilis þau ár sem við vorum saman, fyrir utan þau tímabil sem við bjuggum erlendis. Mín menntun mátti víst alveg bíða, fannst honum og fleiri voru sama sinnis. Því þetta sjónarmið hans naut auðvitað fulls stuðnings eldri kynslóðarinnar, sem hafði það viðhorf að hlutverk konunnar ætti fyrst og fremst að vera að styðja við mann sinn, en ekki að ota sínum eigin tota! En þetta var nú í "denn", svona hugsar held ég enginn lengur nú til dags, hvorki af eldri né yngri kynslóð.

Sjúkraliðaprófið tók ég reyndar með nokkrum herkjum, því ég fór einhverra hluta vegna mjög mikið í taugarnar á aðalkennaranum okkar á Króknum, svo mjög að samnemendur mínir spurðu stundum hvað væri eiginlega að manneskjunni að leggja einn nemanda sinn nánast í einelti, að minnsta kosti á stundum. Mér gekk vel í bóklega hluta námsins, en verklegi hlutinn reyndist mér erfiðari en mig hafði grunað, mér fannst ég algjör rati og fann oft til þess að samstarfsfólkið hefði ekki mikið álit á verklagshæfileikum mínum! Umrætt fólk var líka mis-umburðarlynt gagnvart því hversu klaufalega ég stóð iðulega að verki í byrjun.

- Mér hefur því held ég sjaldan orðið eins létt og þegar ég tók við prófskírteininu úr hendi skólameistara vorið 1988; ég man að mér fannst ég nánast hafa hrifsað það af honum! Ég hitti svo reyndar viðkomandi kennara síðar fullan úti á lífinu að skemmta sér og virtist hún þá mjög undrandi á hversu lítið kát ég var að hitta hana og spurði mig því ég heilsaði sér svona þurrkuntulega...!

Ég held samt að ég hafi getað talist þokkalega fær sjúkraliði þegar yfir lauk eftir 16 ár á þessum starfsvettvangi, þó aldrei hafi ég nú getað talist einn af þessum dæmigerðu "fokduglegu" í faginu, en samt hugsanlega og á stundum ívið athugulli og naskari á líðan sjúklinganna en þeir sumir, sem verður nú að teljast nokkuð mikilvægt í þessu starfi, ekki satt?

Starfið í heilbrigðisgeiranum á forsendum "fótgönguliðans", eins og einn góður öldrunarlæknir kallaði okkur sjúkraliðana einu sinni, reyndist mér erfiður en dýrmætur reynsluskóli hvað varðar mannleg samskipti; hefur sennilega hvort tveggja í senn barið úr mér vissan hroka sem ég bjó yfir innra með mér en líka hrist af mér vissa lokun og feimni. Þannig virkar víst lífsins skóli, sem setur okkur fyrir það nám sem við þurfum helst á að halda, frekar en það sem við hefðum helst kosið í draumum okkar. Ég samþykki engan veginn að ég hafi verið í þessu starfi af því ég væri svo "góð", eins og frönskukennari nokkur lagði til í ferð sem ég fór með Geirlaugi heitnum þegar hann sótti námskeið fyrir frönskukennara í Montpellier sumarið 1991. Það lá við að ég færi að skellihlæja þegar hún sagði: "Mikið ert þú góð!" þegar ég svaraði henni aðspurð um hvað ég starfaði að ég væri sjúkraliði og starfaði á elliheimilinu á Sauðárkróki.

Þetta nám valdi ég að fara í þegar ég, nýskilin og nýflutt heim frá Afríku, hringdi í framkvæmdastjóra Sjúkrahúss Skagfirðinga og falaðist eftir einhvers konar skrifstofustarfi, en ég hafði dvalið með strákana mína tvo um sumarið að Hofi í Hjaltadal í góðu yfirlæti hjá yngstu systur minni og unnið þar í mötuneyti og hafði sem sagt tekið þá ákvörðun að verða um kyrrt í Skagafirðinum, þar sem mér leist betur á það en að vera ein í höfuðborginni með tvo unga drengi. Slíkt starf var þó ekki á lausu, en hann stakk upp á því við mig að ég sækti um sjúkraliðanám sem verið var að koma á laggirnar við fjölbrautaskólann á staðnum. Þannig að það fór svo að eftir tveggja vetra nám varð ég einn af sjö fyrstu sjúkraliðum sem útskrifuðust úr þeim skóla.

Annar kapítuli er svo það að þarna um sumarið varð ég ástfangin af manni sem bjó einn í stóru húsi og flutti inn til hans eftir stutta viðkynningu með strákana um haustið, þannig leystust nú mín húsnæðismál í það sinnið, því satt að segja hygg ég svona eftir á að ég hafi frekar orðið ástfangin af þessu stóra, fína húsi (teiknað af þekktum af íslenskum kven-arkitekt, sem ég man þó ekki í svipinn hvað heitir) heldur en manninum sjálfum! Aukinheldur gerði þessi sambúð, sem entist nú reyndar í heil fjögur ár, mér líka námið betur kleift, svo það fékk ég þó alla vega út úr henni. Svona hafa karlamálin mín nú alltaf og oftast gengið hips-haps fyrir sig, sér í lagi eftir að ég skildi; vafalaust hafa sumir og margir oft og tíðum hneykslast á þeim, en það verður þá bara svo að vera. Þetta kallast víst að vera tækifærissinni, það er ég þá víst í ástamálum, en hver er nú líka svo sem kaldur og yfirvegaður í þeim?

En ég hugsa að ég sæki um dönskuna, það er mest von til að ég klári hana, þar sem dönsku hef ég kunnað nánast frá barnsaldri, svo það ætti ekki að vefjast fyrir mér að stúdera hana.

Það er annars skrítið með hve misjöfnu hugarfari fólk man menntaskólaár sín. Í gærkveldi var að heyra að það væri þarna fullt af fólki sem virtist minnast þessara ára með mikilli ánægju og sem þeirra bestu í lífinu, þegar það mætti lífinu með gáska og græskulausri bjartsýni. En aftur á móti minnir mig að mér hafi aðallega leiðst mjög mikið í menntaskóla og finnst jafnvel eins og ég hafi verið hálfsofandi allan tímann meira og minna, hefði svo sannarlega þegið að geta útskrifast tveimur árum fyrr, 18 ára og farið að byrja á "alvöru" lífinu. Í mínum minningum var alltaf skemmtilegast á sumrin á þessum árum! Sérstaklega finnst mér þetta hafa verið áberandi síðasta veturinn. Sumrinu áður hafði ég eytt í Ås í Suður-Noregi og man að helst hefði ég ekkert viljað fara heim um haustið; ætli ég byggi ekki í Noregi núna hefði ég verið búin með stúdentinn á þeim tímapunkti?

Engin ummæli: