laugardagur, júní 10, 2006

Dagamunur

Í gærkvöldi gerðum við Óskar okkur dagamun og fengum okkur að borða á uppáhalds veitingastaðnum okkar, Shalimar í Austurstræti. Þaðan fórum við mett og glöð að vanda að sjá kvikmyndina The Da Vinci Code, sem gerð var eftir hinni frægu bók Dan Brown (sem ég hef nú reyndar ekki nennt að lesa ennþá). Þetta er flott mynd, ég var ánægð með hana, en samt fannst mér nokkur atriði í henni með full miklum ólíkindum. Eða hvernig sleppur fólk óséð út úr flugvél sem er vöktuð af vopnaðri víkingasveit, og hvernig getur maður sem gengur við tvo stafi verið jafn snar í snúningum og hinn farlama Sir Leigh Tiebling (leikinn af Ian McKellen, "Gandalf" úr LR) átti að vera? En ekki get ég sagt að ég sé neitt hneyksluð á þeirri kenningu sem sett er fram í myndinni og kaþólskir kirkjunnar menn fyrtast við, eðli málsins samkvæmt mætti segja. Ég er mjög sammála orðum Roberts Langdon (Tom Hanks) í lok myndarinnar, þar sem hann segir meðal annars að það að neita sér um kynlíf geti tæplega verið forsenda fyrir að vera þess umkominn að gera kraftaverk - ?!

IMDb: The Da Vinci Code
Wikipedia: Opus Dei

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sæl Gréta.
Takk fyrir innlitið á síðuna mína. Já, það hlýtur að vera gaman að eiga kost á að fara svona þétt á fjölskyldumót.
Ég gafst upp á DaVinci-bókinni; og það eru ekki margar bækur sem ég gefst uppá.........
Er að lesa Kite Runner núna og hún er gersamlega frábær. Mæli með henni.
Bestu kveðjur til þín!
Guðný Anna