miðvikudagur, júní 28, 2006

Upplestur

Það sem af er júní og fram til hausts hef ég tekið að mér að fara tvisvar í viku, á mánudögum og föstudögum (nema mánudaginn sem ég fór austur, auðvitað!) og lesa fyrir gamla fólkið sem sækir þjónustumiðstöð íbúða eldri borgara að Dalbraut 21-27. Reyndar fór ég ekki þangað í gær, því þá þurfti ég að keyra pabba og mömmu til læknis suður í Kópavog. Pabbi þurfti í læknisskoðun sem læknarnir á Heilsuhælinu í Hveragerði (sem heitir víst reyndar réttu nafni Heilsustofnun Náttúrlækningafélags Íslands, H.N.L.F.Í.), þar sem pabbi var sjálfur yfirlæknir 1957-60, vildu að hann færi í. Sem betur fer reyndust grunsemdir læknanna þar ekki á rökum reistar og hann fékk fína skoðun hjá heimilislækninum sínum, eða öllu heldur staðgengli hans, honum Hauki Valdimarssyni frá Kirkjubæjarklaustri, sem mig minnir að pabbi hafi reyndar hjálpað til að komast heilu og höldnu í heiminn á sínum tíma (kannski er það vitleysa í mér).
Svo nú mun verða sprett úr spori í gönguferðum hjónanna í sumar, heyrðist mér á móður minni, þegar engar afsakanir eru lengur fyrir hendi, nú eða fæti öllu heldur, tíhí, segi nú bara svona. - Auðvitað mun hún móðir mín gæta þess vandlega að ofgera ekki gamla eiginmanninum sínum í spássertúrunum, því það er auðheyrt á öllu hennar tali að hún ætlar sér að halda í hann sem lengst og til þess er leikurinn gerður!

Í dag tölti ég sem sagt þarna niður á Dalbraut fyrir klukkan tvö og las þar upp fyrir 7-8 konur. Núna er ég að lesa fyrir þær bók sem mér virðist þær hafa mjög gaman af. Hún hefur að geyma bernsku- og æskuminningar Ragnars Ásgeirssonar, föðurafa míns, frá tveimur löndum, Íslandi og Danmörku, en þangað var hann sendur árið 1909, 14 ára gamall, til að nema garðyrkju og dvaldi hann þar næstu 10 árin. Ég hafði áður byrjað á að lesa bókina um sr. Friðrik Friðriksson, en hætti við hana eftir tvo lestra og tók til við þessa, þar sem mér fannst þær frásagnir margar of keimlíkar og of mikið sagt frá sömu hlutum í þeim til þess að það gæti verið gaman að hlusta á það lesið upp allt í einu.

Þegar ég fór út úr dyrunum heima hjá mér til að leggja af stað niður eftir kom dálítil skúr, svo ég snéri við og náði mér í litlu grænu regnhlífina sem ég keypti mér fyrir sex árum síðan á 10 daga ferðalagi í Þýskalandi, þegar ég fór að heimsækja Rebekku vinkonu mína og frænku og Alexander manninn hennar, en þau bjuggu þá í Bonn. Núna eru þau flutt til Berlínar, með millilendingu í Haag í Hollandi. Dr. Alexander hefur unnið mestan sinn starfsaldur í þýska utanríkisráðuneytinu, svo þau hjónin eru alvön flutningum og hafa meðal annars búið í Grikklandi í 4 ár, á Íslandi í önnur 4 ár og tvisvar í Japan. Nú sem stendur eru þau stödd hér á landi í fríi, svo það stendur til að skreppa til þeirra í heimsókn eitthvert kvöldið, en þau eiga íbúð hér í Reykjavík sem þau búa í þegar þau eru stödd hér.

Þegar ég kom út aftur frá því að lesa var komið glaða sólskin og blíða, svo ég ákvað að koma við hjá Evu föðursystur minni, sem er búin að búa í mörg ár við Kleifarveg. Líklegast datt mér þetta líka hug vegna þess hve ég var nýbúin að lesa upp eftir afa og glaðleg frásögn hans og skemmtilegar lýsingar á mönnum og staðháttum í fersku minni. Það var gaman að hitta frænku mína og spjalla við hana og manninn hennar, þar er af nógum umræðuefnum að taka og maður kemur hreint ekki að tómum kofanum á þeim bænum, svo mikið er víst! Hitti þar líka hinn elskulega lækni Pál Torfa, frænda minn og son þeirra, sem er alltaf gaman, enda hefur maðurinn samið mörg bráðskemmtileg lög og gefið út á diskum, meðal annarra eitt um hinn elskulega garðyrkjumann; skyldi það vera undir áhrifum frá afa?;o) Hann býr á efri hæðinni og leit inn til móður sinnar rétt sem snöggvast og rabbaði við okkur dömurnar, en faðir hans var farinn út að bollaleggja með málurunum sem eru að mála húsið hjá þeim að utan þessa dagana.

Í kvöld hef ég svo skemmt mér við að finna ljómyndir á netinu sem mér fannst hæfa vel frásögn afa míns af fyrstu vikum og mánuðum hans í Danmörku, því ég las í dag upp úr þeim hluta bókarinnar þar sem hann segir frá því þegar hann kom fyrst til Kaupmannahafnar og var sóttur þangað af tilvonandi húsbónda sínum, sem hann hóf síðan námsvist sína hjá í Hróarskeldu á Norður-Sjálandi. Síðar átti margt merkilegt eftir að drífa á daga hans sem gaman er að heyra um. Ég set eitthvað af þessum myndum af því sem fyrir ung augu hans bar við þessi fyrstu kynni hér með þessum pistli mínum:


Uppi: Vinstra megin Krónborgarhöll,
t. h. Kaupmannahöfn fyrir 1900.

Niðri: Vinstra megin storkur á húsþaki, algeng sjón þá, en sjaldgæf nú.
Hægra megin dómkirkjan fræga í Hróarskeldu.



Lest og lestarstöð frá 1880

Engin ummæli: