sunnudagur, júlí 16, 2006

Afi og amma

Ég set hér að gamni mynd sem pabbi tók í stofunni í læknishúsinu á Kirkjubæjarklaustri af afa mínum og ömmu í móðurætt, þegar þau komu í heimsókn til okkar þangað austur. Þau hétu Guðvarður Pétursson og María Ásgrímsdóttir.
Þau bjuggu þá enn að Minni-Reykjum í Fljótum, þar sem þau ólu upp þrettán börn, ellefu eigin og tvö fósturbörn. Seinna fluttu þau í Akra í sömu sveit og enn síðar á Dalvík og svo til Akureyrar.
Afi varð 94 ára, en amma 98. Amma var heima þangað til tvö seinustu árin, þegar hnén hennar voru farin að bila alvarlega og hún var orðin dettin. Hún fór ekki á elliheimili, heldur fékk hún að vera í öðru af tveimur "föstum" plássum á bæklunardeild F.S.A., þar sem mjög vel var hugsað um hana.
Amma var alltaf mjög létt og kát. Afi var þyngri á bárunnni og talaði ekki af sér, mjög athugull og minnugur, það heyrði maður um leið og hann tók til máls að hann fór aldrei með fleipur eða staðlausa stafi. Hann var í vinnu þangað til hann varð 84 ára, síðast var hann við að "sópa" hjá Möl og Sandi, sem þá var enn starfandi, en annars hafði hann sinnt bústörfum um ævina, auk þess sem hann brá sér á vertíðir meðan hann var yngri, m.a. til Vestmannaeyja og sá þá amma ein um búið á meðan með hjálp barnanna.
Meðan við bjuggum í Reykjavík kom amma alltaf árlega suður í heimsókn og stoppaði í viku eða svo, en þá þurfti hún að drífa sig norður því þá myndi kýrin líkast til fara að bera og piltarnir hennar, það er að segja afi og Örn, bróðursonur mömmu sem ólst upp hjá afa og ömmu, verða farnir að þurfa hennar með.

Ég set hér líka að gamni mynd sem birtist með fréttaskoti í Morgunblaðinu í síðustu viku.
Hún er af einni af mörgum Maríum í ættinni. Þetta er María Hákonardóttir, systurdóttir mömmu, með Erich Köppel, manninum sínum, í garðinum þeirra í Mosfellsbænum. Hún er býsna lík "gömlu" Maríu, ekki satt? Enda það af barnabörnum hennar sem líkist gömlu konunni hvað mest, bæði hvað varðar "sind" og skinn.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Skemmtileg mynd sem ég man ekki eftir að hafa séð áður. Ég man vel eftir þeim báðum, og lýsingin er hárrétt. Að koma heim til þeirra var svoldið eins og stíga inn í tímavél, heimilið eins og lifandi safn um löngu horfið Ísland.

Svo átt þú núna málverkið sem er þarna bak við þau, gaman að því.

Unknown sagði...

Gaman að sjá þessa mynd og lesa smá um þau hjónin... eina minningin sem ég á um að hafa talað við hann langaafa var þegar hann leyfði mér að koma inn í herbergið sitt einu sinni og gaf mér rauðan spilastokk sem var svo lengi í uppáhaldi :-)