mánudagur, ágúst 14, 2006

Ferðalag

Bjarnarhöfn


Í gær fór ég í dagsferð með safnaðarfélagi Áskirkju. Farið var á Snæfellsnes og voru það um 77 manns sem tóku þátt í ferðinni. Fyrst var ekið í Grundarfjörð og snæddur þar vel útilátinn málsverður á veitingastaðnum "Krákan". Síðan var ekið í Bjarnarhöfn, þar sem Hildibrandur bóndi sýndi okkur kirkjuna sína og þá dýrgripi sem henni tilheyra, meðal annars 400 ára gamla altaristöflu sem er sú fallegasta sem ég hef séð á ævinni og heilagan kaleik, sem er frá því um 700 e.Kr., að því er talið er.
Á eftir skoðuðum við svo safnið hans, með bátnum sem faðir hans átti og réri á, ásamt fleiri gripum sem skemmtilegt var að sjá.

Hérna er mynd af altaristöflunni sem ég fann á netinu og Steingrímur Hjartarson á Fossi hefur tekið.
Annars er bannað að taka myndir inni í kirkjunni, af vel skiljanlegum ástæðum, sérstaklega í ljósi þess hversu vel varðveitt altaristaflan er hingað til og að það er vert að gera allt sem hægt er til að svo verði áfram. Maður þakkar bara fyrir á meðan þessi ómetanlegi dýrgripur fær að vera þarna á sínum stað í helgidómi kirkjunni litlu, en ekki lokuð inni á safni inni í glerkassa. Hún er þarna í kærleiksríkri umsjá Hildibrands, en hann hugsar um töfluna eins og hún væri eitt af börnunum hans, það var auðséð.
Einnig sést kaleikurinn góði á bak við dagsetninguna.

Engin ummæli: