miðvikudagur, ágúst 09, 2006

Sund og fleira

Ég fór að dæmi Löllu og dreif mig í sund í dag og synti meira að segja slatta og nú er ég þvílíkt ÞREYTT eftir daginn, rétt eins og hundspottið á myndinni hér til hliðar. Það er nú að vísu ekki eingöngu eftir sundið sem ég er lúin, heldur er ég líka búin að vera á þeytingi við að versla í dag.

Fyrst verslaði ég heilmikið í mínum heittelskaða Góða Hirði, þar sem ég gerði góð kaup, meðal annars fékk ég ALVÖRU, það er að segja handsaumað, bútasaumsteppi fyrir tvíbreitt rúm á kr. 2000.-! Sem meira að segja datt ekki upp í hendurnar á mér þar heldur má segja að það hafi fallið að fótum mér, vegna þess að það lá á gólfinu nánast á miðjum gangveginum og það var eiginlega þess vegna sem ég komst ekki hjá því að taka eftir því. Eitt af því sem ég ÁTTI að fá þarna, mætti halda. - Dreif mig með það beint í hreinsun, þar sem konan varð alveg gáttuð þegar ég sagði henni frá þessum kjarakaupum. Líka fékk ég þarna æðislega fallega postulínsdúkku á 600.- krónur og TVÖ jóladagatöl, veit samt ekki alveg hvað ég ætla mér að gera við þau, en örugglega verð ég búin að finna út úr því fyrir 1. desember ;o).

Síðan fór ég í Ikea, þar sem ég fékk EKKI körfurnar sem áttu að vera væntanlegar fyrir mánuði síðan, heldur var tjáð að Ikea væri HÆTT með þessar sömu körfur. Þannig að ég brá mér yfir til nábúans, það er að segja í Rúmfatalagerinn, þar sem ég fékk þessar líka fínu körfur fyrir slikk. Svo fór ég heim og gerði smá hreint hjá mér, fór svo í sund og svo í Krónuna og keypti eilítið af matvöru.

Venti síðan mínu kvæði í kross og fór í Bræðurnir Ormsson, þar sem ég lét loksins verða af því að kaupa mér FÍNU steikarpönnuna sem mig er búið að vanta lengi og ég sá þar þegar ég fór með mömmu að velja innréttingar í nýju íbúðina þeirra í vetur.

Ég ætti að sofna fljótt og vel í kvöld!

Engin ummæli: