Ég hef sagt frá því áður að ég fer tvisvar í viku og les fyrir eldri borgara sem búa í þjónustuíbúðunum við Dalbraut. Það var leigusalinn minn hún Margrét sem bað mig um að gera þetta í sumar, en hún er djákni við Áskirkju og sér um félagsstarf fyrir eldri borgara í sókninni.
Mér finnst þetta mjög gaman, ég vona að konunum finnist það líka; þetta eru allt konur sem koma til að hlusta, yfirleitt svona fimm til sjö konur. Mér sýnist og heyrist alla vega á þeim að þeim finnist gaman, að minnsta kosti þakka þær mér alltaf innilega fyrir lesturinn.
Núna er ég nýbyrjuð að lesa fyrir þær skáldsögu eftir færeyska rithöfundinn William Heinesen, en honum hef ég haft mikið dálæti á síðan ég las fyrstu söguna eftir hann. Ég man nú að vísu ekki lengur hverja þeirra ég las fyrst. En eitt er víst að ég hef aldrei á ævinni hlegið jafn mikið yfir bók skrifaðri fyrir fullorðna eins og ég gerði þegar ég las smásagnasafnið hans, "Það á að dansa", sem Þorgeir Þorgeirsson þýddi. Eina bókin sem ég hef hlegið jafnmikið yfir var þegar ég las "Ottó nashyrningur" fyrir syni mína og ég veltist trekk í trekk með stuttu millibili svo um af hlátri yfir að synir mínir spurðu hvort ég ætlaði ekkert að halda áfram með lesturinn! Það má segja að ég hafi legið í hláturkrampa yfir bókinni og svipaða sögu er að segja um "danssporin" færeysku.
Bókin sem ég les fyrir gömlu konurnar heitir "Móðir sjöstjarna" og er yndislega frásögn af kaupmannsdótturinn Antoníu í sorg og gleði. Hún er snilldarlega þýdd af Úlfi Hjörvar.
William Heinesen var ekki eingöngu frábær rithöfundur, heldur var hann einnig hagur myndlistarmaður.
Sonur Williams Heinesen er Zacharias Heinesen, myndlistarmaður.
miðvikudagur, ágúst 02, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Þú ert frábær að gefa þér tíma í að lesa fyrir konurnar.
Heinesen er einn af mínum uppáhaldshöfundum. Færeyskar bókmenntir hafa einstæðan sjarma, einkanlega bækur Heinesens. Það er yfir þeim einhver grínagtug melankólía, léttur söngur með þungri undiröldu. Skilurðu hvað ég er að reyna að segja nokkuð? (:-) Sjöstjarnan er dásamleg, - ég ætti kannski að slást í hópinn á Dalbraut!?
Góðar kveðjur að blíðunni aflokinni.
Guðný Anna.
Mér finnst þú lýsa stíl Heinesens mjög vel.
- Vertu velkomin í hópinn!
Skrifa ummæli