
Ég er alvarlega að íhuga að söðla um og skrá mig frekar í tíma í listfræði eftir áramót...??? Þá væri ég náttúrlega líka komin í fagið sem ég tjáði Vigdísi, frönskukennaranum mínum, á sínum tíma að mig langaði til að læra, en þá þurfti maður að fara utan til þess arna (ég minnist þess reyndar einnig að ein bekkjarsystra minna, upprennandi lögfræðingur, flissaði þegar ég lét þennan draum í ljós og fannst þetta greinilega drepfyndin hugmynd!). Ég veit að ein bekkjarsystra minna úr menntó sem er útlærður bókmenntafræðingur og hefur starfað við það í mörg ár (og er reyndar gift öðrum stjörnulögfræðingnum úr MH, sú upprennandi frá því áðan er gift hinum) er í þessu námi.

Jólagjöfin frá mér í ár verður...ha,ha,ha, getið þið giskað....?!!!
Púff, skammdegisdrunginn, myrkrið og kuldinn er að hellast yfir mann þessa dagana; ég hlakka til þegar Óskar kemur aftur suður nú í vikulokin, for good í þetta sinn. Svo er líka Guði sé lof kominn 1. nóvember næst þegar skiptir um dagsetningu, ég veit fátt verra en að vera blönk, sem ég er búin að vera síðan ég kom heim frá Danmark, því ég asnaðist til að leysa út úr tollinum helling af DÚKKUM sem biðu mín þar þegar ég kom heim og hefðu þess vegna alveg mátt bíða þar áfram fram til 11. nóvember, - svona er ég nú stundum fljótfær. En nú hillir líka undir fyrirheitna endurgreiðslu ferðarinnar frá danska utanríkisráðuneytinu, peningarnir eru víst komnir til Háskóla Íslands og bara eftir að útdeila þeim á viðeigandi einkareikninga, reyndar ekki eftir neinu að bíða öðru en EINNI námsmey, sem enn á eftir að láta vita um númerið á bankareikningnum sínum, en fyrr verður ekki greitt út en ÖLL númer eru komin - henni liggur greinilega minna á aurunum sínum en okkur hinum. En því miður verðum við svo víst að greiða skatt af þessum peningum, skilst mér, og líkast kemur þessi greiðsla líka til með að lækka örorkulífeyrinn minn; vonandi er ekki hreinlega bannað að móttaka slíka styrki ef maður er úrskurðaður öryrki, það væri svo sem alveg til í dæminu en alveg fáránlegt þá að refsa fólki fyrir að klóra í bakkann með að vilja læra eitthvað - en hvað veit ég, örvasa konan, nei segi bara sona.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli