mánudagur, nóvember 20, 2006

Kolaportið

Ekki get ég nú sagt að ég sé yfir mig ánægð með söluna í Kolaportinu. Það gekk alveg ágætlega á laugardeginum, svo ég ákvað að vera líka á sunnudeginum. Um nóttina byrjaði að snjóa og allt fór á kaf! Það er ég viss um að dró mikið úr sölunni, fólk nennir örugglega miklu síður að fara neitt þegar allar götur eru fullar af snjó, ég var raunar hissa hvað þó margt kom. En afrakstur sunnudagsins var heldur rýr, rétt aðeins rúmlega fyrir leigunni á básnum þann dag.
Bratzdúkkurnar 4 sem ég var með seldust allar; eina keypti ungur, "þvottekta" íslendingur, hinar þrjár keyptu asíukonur. Þrjár Nancy Ann Storybook dúkkur í upprunalegum kössum seldust allar. Það seldist svo bara ein af "smádúkkunum" sem ég var með, það var amerísk kona sem keypti eina af þeim ódýrustu frá Rexard, af því hún átti svo lítinn pening, sagði hún. Hún dáðist líka mikið að því að salan væri til góðgerðarmálefnis og sagði að ef ég hefði verið að selja svona í Ameríku myndi vera búið að rífa allt út hjá mér, litlu krakkarnir myndu líka vera búnir að koma með sparibaukana sína. Ég heyrði á henni að henni finnst Íslendingar frekar tregir í þessum efnum, "já, þeir leggja víst frekar bara inn á bankareikninga" sagði hún. En þetta er alveg rétt hjá henni, það virðist engu máli skipta að verið sé að selja til styrktar góðu málefni, fólk spáir bara í verðið og vill fá allt sem ódýrast. Mömmurnar neita að kaupa litla bangsa handa krökkunum á 200 kall þó þá langi í þá. Það voru bara 200 krónur í söfunarbauknum litla sem ég var með frá SOS barnaþorpunum eftir þessa 2 daga!
Satt að segja er ég frekar hneyksluð á samlöndum mínum og hallast að því að sonur minn hafi rétt fyrir sér þegar hann segir við mig: "Mamma, þú átt bara að flytja til útlanda, þú passar ekkert inn í þetta þjóðfélag hér!"
Eins og heyra má er ég frekar neikvæð eftir reynsluna af "ekki" sölu sunnudagsins, þar sem ég fékk fullt af fólki að skoða ("oserum" eins og Danir segja). En ég er samt búin að panta mér aftur bás aðra helgina í desember og ætla að reyna að selja aðeins meira, en í þetta sinn verð ég búin að lækka verðið töluvert og verð bara að selja fyrir sjálfa mig.

Engin ummæli: