fimmtudagur, desember 28, 2006

Jólin

Þetta hafa verið tíðindalítil jól. Við borðuðum hamborgarhrygg á aðfangadagskvöld og fórum í miðnæturmessu í Hallgrímskirkju. Það var mjög hátíðlegt. Svo borðuðum við hangikjöt, uppstúf og laufabrauð á jóladag. Á annan var bara snarlað af afgöngum og í gærkveldi snæddum við uppáhaldsmatinn minn, soðna ýsu með kartöflum, spergilkáli og gulrótum og smjöri út á. Namm.
Höfum ekkert farið annað en í messuna og svo í smá bíltúr út að vita á Seltjarnarnesi. Ég fékk tónlistardisk frá Óskari, ég gaf honum bók og svo fengum við peninga frá pabba hans og mömmu og miða á nýárstónleika Simfóníunnar frá pabba mínum og mömmu.
Á laugardaginn fer ég í fjölskylduboð hjá Ásdísi, ekkjunni hans Hauks frænda sem lést í haust; ég hlakka til.
Ég fékk fimm góðar bækur í Góða Hirðinum í gær: Glataðir snillingar eftir William Heinesen, Nostromo eftir Joseph Conrad, Endastöðin (Síðasta æviár Tolstojs) eftir Jay Parini, Saga sonar míns eftir Nadine Gordimer og Móðirin eftir Maxim Gorki. Allar þessar "velmeðförnu" kiljubækur fékk ég til samans á 500 kr. (100 kr. stk.). Auk þess fékk ég ókeypis Pétur Most, Salamöndrustríðið, bók sem heitir "Hvorfor skjøt vi på hverandre" og er samtalsbók milli Heinrich Böll og Lev Kopelev og sjálfshjálparbók sem heitir "Don´t grow old - grow up!"
Ég er að hugleiða nýársheit þessa dagana. Það munu verða innleiddar nýjar áherslur í lífi mínu á nýju ári (dúló...he,he...!!!)
Sem óðast að venjast Nýja Blogger, þetta er bara fínt.

Engin ummæli: