Gömul kínversk kona átti tvo leirpotta, sem hún hengdi á sinn hvorn endann á langri stöng og bar á öxlum sínum. Á hverjum degi sótti hún vatn langa leið í uppsprettu fjarri heimili sínu. Annar potturinn var sprunginn eftir endilöngu og var því aðeins hálffullur þegar heim kom. Hinn potturinn var fullkominn og skilaði sér alltaf fullur af vatni eftir þessa löngu leið heim að húsinu. Svona gekk þetta í tvö ár, daglega gekk gamla konan með pottana að uppsprettunni og daglega kom hún heim með aðeins einn og hálfan pott af vatni.
Auðvitað var fullkomni potturinn ánægður með frammistöðu sína. En sprungni potturinn skammaðist sín og leið mjög illa, þar sem frammistaða hans var aðeins til hálfs við það sem hann var skapaður til að gera. Að tveimur árum liðnum talaði hann til konunnar við uppsprettuna: "Ég skammast mín fyrir frammistöðu mína. Vegna sprungunnar á hlið minni lekur helmingurinn af vatninu burt á leiðinni heim. Þú ættir að henda mér og fá þér nýjan pott".
Gamla konan brosti og sagði: "Hefur þú tekið eftir því, að þín megin götunnar er blómaskrúð, á meðan engin blóm vaxa hinum megin hennar? Ástæðan er sú, að ég hef alltaf vitað af þessum galla þínum. Þess vegna sáði ég fræjum við þína hlið götunnar. Á hverjum degi þegar við göngum heim vökvar þú blómin mín! Ég hef nú um árabil getað týnt þessi fallegu blóm og skreytt heimili mitt með þeim. Af því að þú ert eins og þú ert, þá hef ég fengið að njóta fegurðar blómanna".
Það er eins með okkur manneskjurnar, enginn er gallalaus. En það eru gallarnir og sprungurnar sem gera hvern og einn einstakan. Þess vegna er svo spennandi að kynnast og eyða ævinni saman. Við þurfum bara að læra að taka hverri manneskju eins og hún er og koma auga á jákvæðar hliðar hennar.
miðvikudagur, janúar 17, 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Frábær saga!
Skrifa ummæli