Vegna þess að verið er að ræða við starfsmann hjá 112 um símsvörun og viðbrögð við neyðarköllum í morgunútvarpinu þessa stundina, þá langar mig að segja frá því að ég hef aðeins einu sinni (sem betur fer) hringt í 112, en fannst það því miður heldur neikvæð lífsreynsla, þar sem mér fannst viðbrögð þess sem svaraði í hæsta máta annkanaleg.
Tildrög voru þau að það var keyrt á ungan pilt á vélhjóli á gatnamótunum hér neðan við húsið, reyndar hélt bílstjórinn því fram að hann hefði keyrt á sig. Hvað um það, hávaðinn af þessu var það mikill að það heyrðist hingað inn og til slatta af nágranna líka, sem dreif að á hlaupum. Þar sem ég fékk ekki á hreint hvort búið væri að hringja á sjúkrabíl dreif ég mig í að hringja í 112 í gemsann minn sem ég hafði gripið með mér. Skýrði frá því að það lægi ungur maður slasaður í götunni eftir árekstur vélhjóls og bíls, sennilega fótbrotinn og óskaði eftir að sendur yrði sjúkrabíll á hornið á K. og K. (og lögregla, að sjálfsögðu). Hvaða frekari upplýsingum óskaði sá sem svaraði mér helst eftir? Getið upp á því...: "Hvaða tegund af bíl var það sem sem var "innvíklaður" í atburðinn?" Ég: "Ha? Tegund af bíl? (Hvað hefur það nú með það að gera að koma slösuðum manni til hjálpar?)...Ja, það veit ég ekki, þekki ekki bílategundir, en það liggur ungur, slasaður maður hér í götunni sem þarf að komast undir læknishendur sem fyrst!" Hann:"Nei, nei, góða mín, ég þarf að fá mynd af aðstæðum fyrst, vertu nú bara róleg og segðu mér hvaða tegund af bíl það var?"..."Ég: ...ja, já, þa, það er slasaður maður hérna..." Hann: "...já, já, góða mín, segðu mér fyrst frá aðstæðum, hvaða tegund af bíl var þetta?"...þá var undirritaðri nóg boðið og rétti næsta karlmanni símann... Sem betur fer kallaði svo fljótlega einhver að það væri búið að hafa samband við 112 úr öðrum síma.
Púff! Það lítur út fyrir að það sé betra að vera klár á bílategundum við svona aðstæður, skítt með alla fyrstu hjálp, eða hvað? Ætli hann hafi næst viljað fá að vita af hvaða tegund vélhjólið var áður en hann féllst á þörf fyrir sjúkrabíl? Kannsi líka árgerð og skráningarnúmer? Undarlegt, og alls ekki í samræmi við þau viðbrögð sem ég bjóst við. Vona að þau séu ekki dæmigerð.
Eins hef ég í framhaldi af þessu velt því fyrir mér varðandi viðbrögð á slysstað þar sem saman er kominn hópur af fólki og allir með gemsana sína tilbúnir að hringja á aðstoð; hvernig er hægt að samhæfa það að hringja eftir hjálp, svo ekki berist ótal hringingar af sama staðnum?
föstudagur, febrúar 09, 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli