mánudagur, nóvember 28, 2005

Stefán Árnason

Hann Stebbi litli er dáinn. Hann var skólabróðir mannsins míns fyrrverandi og ágætur vinur hans í þá daga. Hann var ógleymanlegur í útskriftarferð skólans til Torremolinos 1975 (ég fór með hópnum í hana, greykallinn minn var sá eini í hópnum sem var kvæntur, svo ekki var laust við að maður yrði pínu utan garna í hópi smáruglaðra Bifrestinga!). Þar sá ég í búðarglugga og keypti svona engils-styttu, af því að mér fannst hún svo lík Stebba. (Þessi á myndinni er samt ekki eins lík Stebba, andlitsdrættirnir eru öðru vísi á minni) Ég á þessa styttu enn, þrátt fyrir marga flutninga og hef Stebba sem sagt ennþá hjá mér upp á punt!
Þegar við bjuggum á Akureyri kom hann líka í heimsókn, þá var nú fjör, svo sem sjá má af því að honum dugði ekki minna en tvær blaðsíður í gestabókinni okkar undir teikningar og grín!
Ég hugsaði dálítið um Helgu, ömmu hans, á sjúkrahúsinu á Sauðárkróki áður en ég byrjaði að læra sjúkraliðann. Það var í raun og veru hún sem sýndi mér fram á að ég gæti alveg lært þetta. Því ég heyrði einu sinni álengdar á leið inn á stofuna hennar að hún hundskammaði tvær konur sem voru inni hjá henni og gerðu bara grín að rausinu í henni, en þegar hún sá mig í dyrunum fór hún að gráta. Þá vissi ég að ég yrði ekki alvondur sjúkraliði, þó ég kynni ekki mikið og væri hálf klaufaleg við margt í byrjun.
Stebbi var alltaf glaður og kumpánlegur við mig ef ég átti erindi á litlu prentstofuna sem hann rak ásamt öðrum á Sauðárkróki, meðan við bjuggum bæði þar. Ég var oft að rekast á Stebba á förnum vegi nú í sumar og haust, þá var hann líka glaðlegur og kumpánlegur, þrátt fyrir bágar aðstæður og brösótt heilsufar. Síðast sá ég hann á Hlemmi fyrir nokkrum vikum. Hann var góður kall, en búinn að gefast upp í baráttunni við Bakkus. Ég hugsa að ég taki mig til og fari í jarðarförina hans á morgun og fylgi honum síðasta spölinn.
...
Æ, svo fór ég ekki, því Óskar fór að vinna í morgun og ég var alltof syfjuð til að rífa mig upp kl. 7.30 og keyra hann svo ég hefði bílinn - viss um að Stebbi fyrirgefur mér það... En næ með strætó ef ég dríf mig....
...
Púff, rétt náði því, þó ég kæmi aðeins of seint. Sé ekki eftir að hafa drifið mig af stað, þó það væri á síðustu stundu, því þetta var andleg næring, falleg ræða og full kirkja af fólki, auðséð að það þótti mörgum vænt um Stefán.
Líka fín líkamleg næring, því það var flott erfidrykkja á eftir á Hótel Borg, þar sem maður hitti marga Sauðkrækinga, mest brottflutta vitaskuld, og líka skólasystkini hans frá Bifröst, þar á meðal minn X og Síló frænda, Stebbi hefði orðið kátur með hana.

Engin ummæli: