laugardagur, desember 03, 2005

Heilsan

Það sem er fyrst og fremst erfitt við að vera með krabbamein, en samt frískur, (án gæsalappa!) er vitneskjan um að samt sem áður liggi einhvers staðar í líkama manns skaðvaldur í leyni, skaðvaldur sem haldið er niðri með lyfi sem lítil reynsla er komin á. Það er alltaf svo stutt í kvíðann og hann er í raun og veru það sem maður þarf fyrst og fremst að takast á við, því kvíðinn er besti vinur sjúkdómanna og grefur undan ónæmiskerfinu og þar með heilsunni. Maður er alltaf á vakt og meðvitaður um öll smæstu einkenni sem líkaminn gefur til kynna, maður fær varla kveisu án þess að fyllast grunsemda um annað verra, eða alla vega að það flögri í gegnum heilabúið. Þetta getur reynt á jafnaðargeðið, sem maður neyðist til að rækta með sér af auknum krafti við að takast á við þennan sjúkdóm. Held að þetta sé sameiginlegt með öllum sem fengið hafa þennan sjúkdóm, þó svo tilhugsunin dofni eftir því sem lengra líður frá veikindunum.
En það var samt einmitt það sem varð mér mesta áfallið við að greinast aftur, að það var liðinn svo langur tími frá því að ég greindist fyrst. Ég var orðin svo hjartanlega sannfærð um að ég væri úr allri hættu hvað hann varðaði. Fór í eftirlit í 15 ár, 16 árið sleppti ég að fara í því og það 17 var ég endurgreind* með krabbamein, núna fyrir sléttum 5 árum síðan. Úff! Fór á slysó í Fossvogi með einkennilegan brjóstverk, keyrð úr vinnunni af "afskiftasömum" hjúkrunarfræðingi og samstarfskonu (og kann ég henni eilífðarþakkir fyrir afskiftasemina!) í byrjun nóvember, þar sem sáust breytingar í lungum og brjósthimnu, mér var svo sem lítið sagt í byrjun. Fékk tíma hjá sérfræðingnum mínum, hann vildi ekki trúa þessu í fyrstu, en datt kannski í hug að ég hefði náð mér í berkla einhvers staðar! Man að eftir alls kyns rannsóknir byrjaði ég svo að taka Tamoxifen 15. desember, 2000. En það var ekki fyrr en milli jóla og nýárs, í hefðbundinni "kjallaraleit" á leitarstöðinni að uppgötvaðist að krabbinn hafði dreift sér í kviðarhol, í eggjastokkana (sem læknirinn sem skoðaði mig kallaði "eldfornt fyrirbrigði", það er að segja ekki mig, heldur væri það þekkt langt aftur í tímann að brjóstakrabbi dreifði sér svona ) og fleira, þannig að eftir ármót tók við aðgerð á kvennadeild. Síðan tóku við stanslaus hita- og svitaköst sem stóðu út það árið, svo mér fannst ég oft vera bæði að kafna og missa vitið. Og svo sprakk í mér botnlanginn í júní, sundurgrafinn af því sama, í júní, með tilheyrandi sýkingu og kvalræði, þannig að það finnst sjálfsagt engum undarlegt að í mínum huga var árið 2001 hörmungaárið mikla!
Kvíðinn veldur því líka að öll hugsun um framtíðina verður full af vafa, til dæmis er ég ekki mjög hress með (þegar ég er í vinnu) að vera skikkuð til að borga í lífeyrissjóð sem Guð einn veit hvort mér endist aldur til að fá nokkurn tíma eitthvað úr til baka. Og ekki einu sinni að erfingjar manns myndu fá neitt af þeim krónum sem maður hefur stritað fyrir í gegnum ævina, nei allt saman rennur til sjóðsins og þeirra sem ná því að verða löggilt gamalmenni. Í þessu sambandi hef ég farið að velta því fyrir mér í seinni tíð hversu há sú prósentutala sé þeirra sem ná þeim aldri. Ég er ekkert viss um að hún sé neitt stórkostleg eða mikið ofan við miðju (50%), miðað við slysfarir og alla þá sjúkdóma sem hrjá fólk í nútímaþjóðfélaginu.
En væntanlega myndi maður þó fá sjúkratryggingu úr þessum lífeyrissjóðum sem ég hef greitt í ef svo illa færi, en því miður myndi hún þá bara skerða þá örorku sem maður fengi.
En ætla svo sem ekkert að vera að velta mér upp úr þessu og geri það svo sem ekkert dags daglega, þó mér verði á stundum á að hugsa um þetta og finnast það óréttlátt.

*Ég segi frá því þegar ég greindist fyrst með brjóstakrabbamein, árið 1983, í "Bréf frá Tanzaníu", sem er í tenglunum hér til hægri undir "Mínar síður".

Engin ummæli: