mánudagur, nóvember 07, 2005

Það var mjög skemmtilegt hjá mér í gær. Við fórum upp í Árbæ til frænku minnar sem þar býr í "Fjölskyldu-félagsvist". Þetta er mjög góður siður hjá móðurfjölskydu minni, að hittast nokkrum sinnum á hverjum vetri og spila, sérstaklega þar sem það er mikið spila-áhugafólk í þessari fjölskyldu. Oftast er spilað á 4-5 borðum, en í gær náðist saman í 6! Þarna mæta allt frá elstu kynslóð, sem eru mamma og systkini hennar (þau eru AÐEINS 10, á lífi - ein systir er látin; þau elstu þ.á. m. mamma eru komin yfir áttrætt, 4 búa hér í Reykjavík, en afkomendur hinna margir) og makar, allt niður í litla krakka sem eru rétt að byrja að læra að spila. Allir koma með kökur og kruðerí með kaffinu, fyrst er drukkið, svo er byrjað að spila og verið að þar til umferðin eða blaðið er búið. Þá eru afhent tvenn verðlaun, fyrstu verðlaun og setuverðlaun. Þau voru ekki af verri endanum í gær, fallegar styttur sem frænka mín er með umboð fyrir frá Uruguy (tengill hér neðar á síðunni ef fólk vill sjá sýnishorn). Höfðu sumir spilarar, þar á meðal ég, á orði að ef þeir hefðu vitað af þessum verðlaunum þá hefðu þeir nú reynt að spila verr og fá setuverðlaunin! Svo þegar þetta er búið fá flestir sér aftur smá kaffisopa, narta í það sem eftir er af veitingunum og spjalla smávegis meira áður en hver fer aftur heim til sín.

Engin ummæli: