miðvikudagur, febrúar 01, 2006

Brandari?


Ef smellt er á myndina til hægri, sem er tákn fyrir Íslam, má sjá eina af þeim myndum sem hafa valdið svo miklu fjaðrafoki hjá Íslamstrúarmönnum um allan heim. Ég vil taka það fram, ef einhverjir sem aðhyllast Íslam kunna að lesa þennan pistil, að ég birti hana hér eingöngu máli mínu til stuðnings.Ég get alveg séð af hverju þeim finnst hún meiðandi í sinn garð, fyrir utan það að þeirra trúarbrögð banna að gerðar séu eða birtar myndir af spámönnunum.

Múslimum finnst að verið sé að gera því skóna í þessum myndum að þeir séu allir óðir djöflar kastandi sprengjum í tíma og ótíma, sem vitakskuld er ekki rétt. Þessi mynd lýsir miklu heldur ótta okkar Vestulandarbúa gagnvart þeim ofastrúarmönnum og hópum sem finnast innan Íslam og ógna öryggi okkar allra, ekki bara á Vesturlöndum heldur alls heimsins.

Á síðustu öld voru gyðingar teiknaðir í skopmyndum sem nirflar, núandi saman höndum í peningagræðgi. Á þessari öld eru múslimar teiknaðir sem sprengjuvargar. Er einhver munur á þessu tvennu? En eins og allir vita voru gyðingar grimmilega ofsóttir og teknir af lífi með gasi í fangabúðum nasista, á meðan almenningur svaf á sínu græna eyra, slævður af áróðursvél Hitlers.

Alvarlegt ástand heimsmála, spenna og átök tveggja menningarheima og ógn við friðinn er ekki brandari. Þessi mynd getur ekki talist eingöngu skopmynd. Hún er mjög táknræn, þar sem hún lýsir að mínu mati í hnotskurn þeim ugg sem fólk á vesturlöndum ber í brjósti gagnvart múslimum, en jafnframt og í leiðinni birtast í henni þeir fordómar sem margt fólk er haldið gagnvart þessum trúarbrögðum og því fólki sem þau ástunda. Ég tel að ritstjóri Jótlands-Póstsins hafi sýnt alvarlegt dómgreindarleysi og gert mistök með að leyfa birtingu þessarar myndar, hvað sem öllu prentfrelsi líður. Því þó þetta hafi verið meint sem grín, þá er óþarfi, óskynsamlegt og hættulegt að leika sér að eldspýtum sitjandi á púðurtunnu. Enda hefur hann víst beðið múslíma afsökunar, ekki mjög iðrunarfullur að vísu.

Dönsk stjórnvöld brugðust líka seint og illa við og neituðu að ræða við forsvarsmenn múslíma þar í landi. En eins og safnaðarformaður múslíma hér á landi sagði í Kastljósinu í gærkvöldi sagði: Þó dönsk stjórnvöld gætu auðvitað ekki skipað Jótlands-Póstinum að biðjast afsökunar, þá hefðu þeir hæglega getað sest niður og rætt málin við menn yfir kaffibolla -
Státa danir sig ekki oft af að vera sérfræðingar í að "hygge sig"?

Tenglar:
Google Search - (denmark muslims)
Religinscope
The Star

Depictions of Mohammed throughout History,
þar á með dönsku myndirnar umdeildu.

Jyllands-Posten
Wikipedia um myndir Jyllands-Posten

02.02.06 Nýjustu fréttir af málinu

Engin ummæli: