föstudagur, júní 23, 2006

Komin aftur

...heim úr skemmtilegu ferðalagi. Ég flaug til Egilsstaða á mánudagsmorgun og lenti þar í blíðviðri og hita. Óskar tók á móti mér þar og svo keyrðum við niður á Neskaupstað. Fórum fyrst heim til hans og hittum pabba hans, skruppum svo í bíltúr um fjörðinn í góða veðrinu. Síðan heimsóttum við mömmu hans á sjúkrahúsið, hún er öll að koma til og henni að batna af sýkingunni sem hún fékk eftir aðgerðina. En hún var nú samt sem áður send heim með sjúkrabíl sama daginn og Óskar fór hingað, sem betur fer; mér leist nú ekkert á að gamla konan færi að hossast þessa leið í okkar bíl.

Eftir það lögðum við af stað til Akureyrar, með viðkomu á Reyðarfirði, þar sem við fengum okkur pizzu með Eysteini eftir að hann var búinn að vinna og keyrðum hann svo heim í "fangabúðirnar", það er að segja kampinn þar sem starfsmenn hafast við. Það er gífurleg öryggisgæsla á öllu því svæði sem tilheyrir þessum framkvæmdum og engum óviðkomandi hleypt inn, þess vegna þetta uppnefni. Vörðurinn við hliðið leyfði okkur fyrir náð að keyra manninn heim að dyrum á hans skúr, þannig að ég gat rétt hlaupið inn og kíkt á skonsuna sem hann býr í á meðan hann er þarna. Hún er sko ekki stór, rétt rúmar eitt rúm og skrifborð og svo er þarna pínulítið sjónvarpstæki, bara eins og fangaklefi, hreinlega. Ég skil hann satt að segja vel að ætla sér ekki að vera þarna nema til haustsins, ég held að það hljóti að vera ömurlegt að hafast þarna við í snjó og kulda og ekki síst myrkri, yfir veturinn.

Á leið til Akureyrar stoppuðum við í Mývatnssveit og fórum í jarðböðin þar, sem var meiri háttar fínt í svona góðu veðri, alveg draumur í dós. Svo var brunað í höfuðstað norðurlands, þar sem við fengum gistingu næstu tvær nætur hjá Þórarni ("Tóta Stallone", hann er þessi í miðið á neðstu myndinni), frænda Óskars. Daginn eftir fórum við í sund og vorum svo að dóla okkur og eyða peningum í flottri versunarmiðstöð sem kallast Glerártorg og um kvöldið heimsóttum við svo Evu systur í litla húsið sem þau hjónakornin eru nýbúin að kaupa, með flennistórri lóð, heilum skógi liggur við. Þar frétti ég að Jón Stefán, sonur hennar, hefði dúxað við útskrift úr fjölmiðlafræði frá H. A. Morguninn eftir kíkti ég svo í kaffi til Rögnu systur, áður en við héldum heim á leið. Vorum komin heim um sexleytið, eftir vel heppnað ferðalag.
Til hamingju með útskriftina, Jón Stefán!
(Vonandi fyrirgefst mér að hafa rænt þessari mynd af þér af netinu!?)
Í gær gerði ég svo eiginlega lítið annað en að leika mér í Myst ->
og tókst svo að klára leikinn nú í morgun, svindlaði samt aðeins og sótti mér lausnir á netið, nennti ómögulega að leggjast yfir að leysa tvær síðustu gáturnar, þar sem þær voru ansi snúnar. (Óskar er nýbúinn að fá sér nýjan síma sem hægt er að taka myndir á og senda beint í pósthólf, eins og sjá má á myndinni hér fyrir ofan!)

En það bar merkilegt til tíðinda í gær að hann Úlfur minn birtist allt í einu í dyrunum með kærustuna sína, hana Shanine, sem er frá Seattle í Bandaríkjunum. Hún er hálf íslensk, á íslenskan pabba, en mamma hennar er frá Ecuador. Hún er samt sem áður fædd og uppalin í Seattle. Eysteinn var að vísu búinn að frétta af því og segja mér að hún væri stödd hér í fríi, en ég átti nú ekki von á þeim svona "óforvarindis", þó svo ég væri nú reyndar búin að spá í hvort drengurinn ætlaði ekkert að sýna mér hana! Þetta er mikil myndarstúlka, starfar við fyrirtæki foreldra sinna sem flytja inn norskar ullarvörur, en er líka í tónlist með bróður sínum og gaf mér disk sem þau eru nýbúin að gera til að koma sér á framfæri, hér heima og fyrir vestan.

Engin ummæli: