laugardagur, ágúst 19, 2006

Afagaman



Ljáðu afa ljúflingskæti
litli sólskinsvin
Bakvið tímans látalæti
ljómar eilífðin

Undir niðri ákaflega
ævintýragjarn
hýsir afi heimsins trega
hláturmilda barn

Má hann afi kannski kíkja
í kankvís augu þín?
Skuggar allir undan víkja
Aftur ljósið skín

Ævintýr er allt sem lifir
Ævintýr ert þú
sjórinn, landið, loftið yfir
líf í glaðri trú

Upp með fjörið, glens og gaman
Gæfan ríkti ef
allir bara syngju saman
svona glaðvær stef

Á hvítasunnu 1981
Úlfur Ragnarsson

Engin ummæli: