föstudagur, ágúst 18, 2006

Hirsla

Jæja, þá get ég farið að fækka ferðum mínum í Góða Hirðinn, því í dag fékk ég hirsluna sem ég er búin að vera að leita mér að þar í svefnherbergið mitt. (Þar að auki virðist "þjóðbúningadúkku-hrinan sem búin er að vera þar undanfarna daga vera afstaðin, einhver hafði gefið töluvert safn af þeim, sem ekki var hægt að láta fram hjá sér fara ósnert!). Hún er meira að segja í nákvæmlega þeim málum sem ég var búin að setja mér sem "ideal", það er að segja 80 cm á lengd og 50 cm á dýpt, svo er hæðin líka alveg í samræmi við þá hugmynd sem ég hafði gert mér um þessa hirslu, eða 120 cm. Hirslu segi ég, því þó ég hafi verið búin að hugsa mér kommóðu þá er þessi hirsla eiginlega hvort tveggja, kommóða og skápur; þrjár litlar skúffur efst, svo kemur ein stærri skúffa og loks góður skápur neðst, undir öllu saman. Flott! Dökkgrænt og svart, sem er alveg í stíl við allt þetta bleika, bláa og græna í öðrum munum herbergisins. Það voru rispur á gripnum hér og þar, en því reddaði ég með því að tússa með svörtum "permanent"tússpenna í þær sem voru á svarta hlutanum, svo gæti ég hugsað mér að ná mér í grænan tússpenna og fara eins að við hvítu doppurnar sem eru á grænu plötunni efst, sem annars eru ekki til að tala um. Sem sagt, fínt húsgagn og gott mál. Fyrir þessi herlegheit gaf ég 2.500.- krónur, íslenskar. ;o) (Sem er um það bil 6.000.- krónum minna en ég borgaði fyrir skáp sem ég keypti í baðherbergið í Ikea um daginn). Svona fær maður á endanum allt sem mann vantar í Góða Hirðinum, bara ef maður er nógu þolinmóður.
Því miður á ég ekki enn hvorki stafræna myndavél né síma með slíku, annars myndi ég smella af til að sýna. Óskar er fyrir austan að vinna, svo ekki bið ég hann, grasekkjan.

Engin ummæli: