fimmtudagur, ágúst 24, 2006

eBay

Undanfarna daga (eða fyrst og fremst kvöld og nætur, satt best að segja) er ég búin að liggja yfir eBay og skoða dót og svo er ég búin að bjóða í og vinna (mjög oft er ég nú eini bjóðandinn) dót þar, sem ég á von á á næstu vikum. Mér finnst þetta alveg æðislega gaman, bara eins og jólin, að eiga von á pökkum, sem ég hef þó reyndar borgað sjálf. Ég held næstum að ég hafi "inspírerast" af sjónvarpsauglýsingunni með Jóni Gnarr frá Happdrætti Háskólans! Samt er það nú ekki þannig að skilja að ég hafi fengið happdrættisvinning, enda er það borin von, þar sem ég spila hvorki í happdrættum né lottó; þó svo ég kaupi einn og einn miða sem dettur inn um póstlúguna eða er verið að selja á förnum vegi, til að styrkja góð málefni, kaupi reyndar alltaf af Krabbameinsfélaginu.

Þetta er nú allt eitthvað lítið og létt og ódýrt sem ég kaupi á uppboði á eBay, allt á innan við 10 dollara, þannig að flutningskostnaðurinn er mesti kostnaðurinn við þetta og yfirleitt ríflega helmingi meiri en varan sjálf!

Ég ætla nú að láta gott heita með þessa verslun, í bili að minnsta kosti, en ég hef hugsað mér að leyfa lesendum bloggsins að fylgjast með því þegar varningurinn fer að detta inn, því ég hef vistað allar myndir af því sem ég hef keypt. Þetta eru nú mest dúkkur, aðallega þjóðbúningadúkkur, en ég keypti líka rússneskar, handmálaðar tréskeiðar af tveimur aðilum og fyrri pakkann sótti ég á pósthúsið í dag. Það var nú bara ein skeið, sem er jafnvel ennþá fallegri í reynd heldur en hún sýnist á myndinni sem ég set hérna með. Hún var reyndar það fyrsta sem ég keypti og þess vegna líka það fyrsta sem ég fæ, geri ég ráð fyrir. Kostaði $3,99, kom frá Dorval í Quebec, Kanada.

Það var reyndar rússnesk tréskeið sem varð kveikjan að þessari eBay-verslunarskorpu minni. Þannig var mál með vexti að ég keypti svona skeið, að vísu ekki nærri því eins fallega, í Góða Hirðinum, en uppgötvaði svo þegar ég kom heim að ég hafði gleymt henni á afgreiðsluborðinu, sem þýðir það að hún er fljótlega tekin til handargagns af afgreiðslufólkinu og seld aftur, því þannig ganga nú viðskiptin bara þar á bæ, ekki verið að tvínóna við hlutina. Í ergelsi mínu og þráhyggju yfir þessari yfirsjón fór ég inn á eBay og skoðaði úrvalið þar af "russian wooden spoon", með þessari útkomu, að núna er ég búin að kaupa 10 rússneskar skeiðar (seinni pakkinn er upp á 9 stk. saman) og gommu af sætum dúkkum!

4 ummæli:

Dúa sagði...

Uppgötvaði ebay sjálf í fyrra og fór á "fyllerí". En kva núna á svona 7 réttlætisgyðjur (safna þeim) og talandi klósettrúlluhaldara sem er auðvitað nauðsyn á hverju heimili.

Saumakona - eða þannig sagði...

Hmm, ég er nú að verða búin að kaupa gott betur en 7 dúkkur, bæði antík og postulíns! Held mig samt í ódýrari kantinum, undir $ 10 er viðmiðið. Eins og ég sagði áðan er sendingin yfirleitt dýrari en varan sjálf hjá mér.

Saumakona - eða þannig sagði...

Réttlætisgyðjur - eru þær japanskar, eða hvaða fyrirbæri er þetta? Kannski ég geti líka komið mér upp dellu fyrir þeim...ha,ha,ha...;o)

Dúa sagði...

Ef þú gúgglar "goddess of justice" eða "Themis" ...þá sérðu það. Gríska réttlætisgyðjan með sverð, vogarskálar og bundið fyrir augun :)

Já sendingarkostnaðurinn var sko helmingur af kostnaði :(