föstudagur, ágúst 11, 2006

Litla skógarpinsessan

Þessi mynd sýnir vel hversu mikið er hægt að laga myndir í ArcSoft Studio, sem fylgdi skannanum okkar Cannon Prixma MP 500 :

"Ännu sitter Tuvstarr kvar och ser ner i vattnet."

<- Í þessum litum birtist myndin
á vef John Bauers Museum.


Myndin er eftir svíann John Bauer. Því miður hef ég ekki séð frummyndina, svo ég get ekki dæmt um hversu vel mér hefur tekist að komast nálægt henni, þetta er stundum vandamál, sérstaklega þegar um málverk er að ræða, því litir geta verið svo margræðir. Þegar unnið er með ljósmyndir verður oft að teljast smekksatriði hvaða litbrigði maður vill fá fram, en þegar um listaverk er að ræða hlýtur maður að vilja reyna að nálgast liti frummyndarinnar eins og hægt er, þó einnig geti einmitt verið býsna gaman að leika sér með listaverkin og virða fyrir sér hvernig þau koma út í hinum ýmsu tilbrigðim. Enda hafa málararnir svo sem stundað það sjálfir að mála mismunandi tilbrigði við sama myndefni, svo sem málverk Cézannes af fjallinu St.Victoire eru frægt dæmi um. - En svo getur auðvitað litur listaverka einnig breyst mikið með tímanum, það fer vitaskuld mikið eftir gæðum efniviðarins sem notaður er hversu vel hann varðveitist (nokkuð sem við nútímafólk mættum hafa í huga, eða er allt orðið einnota hjá okkur?).

Í þessu sambandi minnist ég þess að þegar ég kom hér um árið í Louvre og Pompidousafnið, tvö stærstu listasöfn Parísar, til að líta þar með eigin augum frummyndir listaverka sem maður hafði í gegnum tíðina skoðað í bókum, varð ég mjög undrandi að sjá hversu miklu tærari og ferskari litir þeirra voru heldur en maður hafði gert sér í hugarlund samkvæmt þessum fyrrnefndu bókum. Enda halda þessi heimsfrægu listsöfn auðvitað þeim ódauðlegu listaverkum sem þeim er trúað fyrir að geyma í toppstandi með fyrsta flokks vörslu, skyldi maður ætla. En þó tækni í prentverki fleygi fram hugsa ég að hún muni aldrei geta fullkomlega náð fram þeirri fegurð og þeim andblæ sem fylgir upprunalegu myndunum. Rétt eins og það að hlusta á tónlist af geisladiski mun aldrei jafnast á við að hlusta á hana flutta á staðnum, sama hversu góð upptöku- og spilunartækin eru.

Engin ummæli: