sunnudagur, ágúst 13, 2006

Píla Pína

Hljótt er nú í húsum inni,
harmur býr í allra sinni.
Hvar er litla Píla Pína?
- Sárt er að missa sína.

Burt hún hvarf og brekkan grætur.
Birtist mér í draumi nætur
veslings litla Píla Pína.
- Sárt er að missa sína.

Músaguð við hættum hlífi
henni, sé hún enn á lífi.
Græt ég, litla Píla Pína.
- Sárt er að missa sína.

Rætist óskir hennar heitar,
hún það finni sem hún leitar.
Komdu aftur Píla Pína!
- Sárt er að missa sína.


Þetta ljóð er úr sögunni um Pílu Pínu, eftir skáldið Kristján frá Djúpalæk. Við þetta og fleiri ljóð um sömu mús samdi Heiðdís Norðfjörð sönglög sem er að finna á hljómplötu sem gefin var út með sögunni árið 1980 og fékk nafnið "Pílu pínu platan". Synir mínir elskuðu þessa sætu mús, kunnu söguna og söngvana um hana utanað og sungu þá öllum stundum. Mér finnst þessi saga, bókin og tónlistin, vera eitt af því góða barnaefni frá árum áður sem mætti gjarnan gefa út aftur.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Oh, þetta vekur dásamlegar minningar, börnin mín elskuðu þetta, einkanlega sonur minn sem er fæddur 1979. Yndislegt!
Ég er búin að raula þetta fram og til baka síðustu mínútur.
Bloggkveðjur frá GAA