þriðjudagur, ágúst 29, 2006

Rússneskar tréskeiðar

Þá er næsta "item frá eBay komið í hús: 9 rússneskar tréskeiðar, 5 stórar og 4 litlar. Ein þeirra stóru finnst mér fallegust og líta mest út sem handgerð (það er sú sem er lengst til vinstri á myndinni), hinar finnst mér síðri og útlitið vera meira eins og fjöldaframleiðsla, en þær eru samt sem áður fallegar líka.
En þessar skeiðar þurfti ég að sækja í tollinn og borga næstum það sama af þeim eins og þær kostuðu í dollurum og með sendingarkostnaði samanlagt, það er að segja $16, þó svo að sá sem seldi mér þær í Bandaríkjunum hafi verið svo vinsamlegur að merkja pakkann sem gjöf (sem ég bað hann þó ekki um). Fyrsta skeiðin kom í pósti og ég borgaði ekkert af henni, sama innihald, sambærileg sending, skrítið misræmi. Svo bar ég útreikninginn á tollinum undir manninn sem leigir mér, sem er "næstum því" doktor í hagfræði, en hann botnaði ekki alveg í honum, samkvæmt þeim prósentutölum fyrir útreikningnum sem tollstjóraembættið gaf mér upp var hann ekki réttur, nema það gæti verið að þeir hefðu lagt 450,- króna þjónustugjaldið, sem tekið er fast af öllum aðfluttum vörum, við vörugjaldið og reiknað svo toll og virðisaukaskatt. Skrítin reikningskúnst það.
Með svona lökkuðum tréskeiðum borðaði rússneskt alþýðufólk alveg fram til 1950. Þær höfðu einnig annað hagnýtt gildi: Ef börnin voru óþæg fengu þau bank á ennið með einni svona! Varla mjög þægilegt, en þó skárra heldur en ef skeiðin hefði verið úr málmi.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Fallegir og athyglisverðir hlutir.
Það eru einmitt tollareglurnar sem bjarga mér frá því að versla á eBay. Hef brennt mig illilega á ofurtollum af bókum og dvd-diskum af amazon.com og held mig bara við íslenska okrara. Langar samt oft ótrúlega í eitt og annað bæði á amazon og eBay...(:-) en það líður alltaf hjá.
Góðar stundir!
GAA

Saumakona - eða þannig sagði...

Leigusalinn minn, maðurinn á efri hæðinni, hafði samband við tollafgreiðsluna fyrir mig og talaði við þar við rétta aðila og það kom í ljós að gjaldið var of hátt reiknað, eins og okkur sýndist báðum. Ég fæ leiðréttingu upp á 180.- kr., sagði hann. Það getur alveg munað miklu meiru þegar svona vitlaust er reiknað, ef um umtalsverðar upphæðir er að ræða. Einhver að reikna þarna sem hefur ekki hugmynd um hvað hann er að gera, kannski búinn að hafa pening af fleiri manns, sem athuga ekki málin.