mánudagur, september 04, 2006

Dúkkulísur


Mér datt í hug, af því að rætt var um dúkkulísur, að setja hér inn það eina sem eftir er (að því er ég best veit) af hinu gífurlega umfangsmikla, á tímabili að minnsta kosti, dúkkulísusafni okkar elstu systranna þriggja. Við töldum þær einu sinni og reyndust þær vera yfir hundrað. Við, segi ég, þó að vitaskuld hafi eldri systurnar tvær líkast til átt megin hlutann af safninu. En reyndar tengist fyrsta minning mín um fláræði heimsins einmitt dúkkulísuvafstri okkar systranna. Ég sat og ríslaði mér með nokkrar slíkar spölkorn frá þaðan sem þær stóru stóðu og stungu saman nefjum. Svo heyrði ég aðra þeirra segja við hina: "Þessi er orðin svo ljót, við skulum gefa Gretu hana..." Síðan komu þær brosandi og voða "góðar" og sögðu: "Greta mín, þú mátt eiga þessa!". Ég var nú aldeilis ekki á því, sármóðguð eftir að hafa heyrt til þeirra það sem ég átti ekki að heyra (ég hef alla tíð heyrt mjög vel), svo dúkkulístötrið reif ég í tætlur og hoppaði svo á því, síðan hljóp ég grenjandi til mömmu að klaga. - En það var nú ekki þetta sem ég ætlaði að koma á framfæri, heldur ætlaði ég að sýna hér það sem eftir er af mjög fallegum þjóðbúningadúkkum sem "við" áttum (einhvern veginn held ég að Heiðu hafi verið gefnar þær), það er að segja kápan utan af bókinni sem þær voru í. Ég er að vísu búin að laga myndirnar, því þær voru með götum þar sem sem sum andlitin áttu að vera, "see through", sem dúkkulísurnar áttu að sjást í gegnum, en í götin límdi ég kópíur af andlitum hinna dúkkulísubarnanna. Þessa bókarkápu er móðir okkar búin að geyma í gegnum árin og alla flutningana og gaf mér hana sem sagt í vor, en hún er búin að vera að fara í gegnum gamla muni og gefa þá.

Höfundur "lísanna" er E.A.Voss, en hún mun hafa myndskreytt vinsælar barnabækur um miðja síðustu öld og teiknað nokkrar dúkkulísur fyrir Merrill Publishing Company.
History of Paper Dolls

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir þetta, Gréta. Ég gleymdi mér gersamlega í linkunum og gömlu dúkkulísunum. Fann reyndar ekki Kim Novak, sem var mér svo kær! Kannaðist hinsvegar við fullt af þessu og er búin að vista þetta í bak og fyrir í áhugamálamöppunni minni.
GAA

Saumakona - eða þannig sagði...

Mig minnir að ég hafi séð Kim Novak-dúkkulísur til sölu á eBay um daginn. Ég kíki kannski eftir þeim þegar ég má vera að.