Til þess að yfirfylla ekki bloggsíðuna mína með endalausum dúkkusögum af því mikla magni af dúkkum sem ég hef eignast í gegnum eBay, þá hef ég ákveðið að einfalda málin við að standa við loforð mitt um að sýna þær hér og hlaða myndum af þeim inn á Flikr jafnóðum og þær berast mér.
Get samt ekki stillt mig um að segja frá einna sérkennilegustu dúkkunni sem ég hef keypt og þeirri einu, held ég, sem getur kallast antík. Þetta er máluð dúkka úr einhvers konar leir eða "bisque", eldgömul held ég, veit samt ekki síðan hvenær, en henni var lýst sem ítalskri eða "latino" í sölulýsingunni. Mjög sérkennilegur og skondinn andlitssvipur á henni. Og hún var þvílíkt grútskítug þegar ég fékk hana heim að dyrum í gærkvöldi að ég hef nú bara aldrei nokkurn tíma séð annað eins! Greinilega flinkur ljósmyndari sem gerði myndina af henni, þar er hún öllu ljósari öll og snyrtilegri, í rauninni er hún frekar dökk.
Svo var ég viss um að ég væri búin að eyðileggja hana gjörsamlega í fyrstu tilraun minni til að heinsa hana, því svona dúkka þolir náttúrlega ekki vatn og málningin bara springur. Í einhverju bríaríi fór ég að þvo hana, heldur óvægilega, og ég kann náttúrlega akkúrat ekkert fyrir mér í að gera upp gamlar dúkkur. En ég held ég hafi reddað henni með því að "endurmála" á henni andlitið með olíulit og restin er náttúrlega að mestu hulið af fötunum. Sem ég hef hugsað mér að endurnýja að fullu og hafa gömlu fötin til hliðsjónar. Sjalið og pilsið voru rifin og tætt (ég vissi nú af því með pilsið, og eigandinn tiltók líka að "taskan hennar væri mjög skítug", en sem sagt ekki að hún væri það öll!) og hatturinn hennar og taskan eru úr filti, ekki svo gott að þrífa. Það eina sem hún fær að hafa áfram sem er gamalt er svuntan, sem ég uppgötvaði eftir þvott að er fjólublá, en ekki svört, eins og ég hélt! En ég hugsa að hún verði bara (aftur) mjög sniðug þegar ég verð búin að laga hana til, en það fannst mér ég verða að gera, þar sem hún var ekki í húsum hæf svona koldrullug af áratuga gömlum skít.
miðvikudagur, september 13, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli