sunnudagur, febrúar 11, 2007

Ég um mig...

Orri Harðarson skrifar í Moggablogg sitt um veikindi sín í frumbernsku:

"Sálfræðingar hafa talað um að atvik í frumbernsku geti haft varanleg áhrif á sálarlífið. Þegar ég kom inn í þennan heim var mér vart hugað líf. Ég kom fyrir tímann og var víst haldinn einhverju sem í dag kallast loftbrjóst. Það er ekki fallegt orð. Virkar á mann eins og einhver sérstök tegund af vindgangi. En þegar ég fæddist hét þetta keisaraveiki. Það er nú öllu meiri vigt í því, enda var ég í bráðri lífshættu. Læknar gátu ekkert gert og ég megnaði aðeins að draga andann með því að liggja á vinstri hliðinni. Svo beið fólk eftir því að ég læknaði mig sjálfur. Það hefði mér þótt ótíðindi, væri ég farinn að hugsa. En þarna var ég sumsé strax orðinn vinstrisinni og enn ekki farinn að hugsa heila hugsun. Vinir mínir á hægri vængnum bíða sjálfsagt enn eftir að af mér brái." (GBÚ:Feitletranir eru mínar.)

Ber að skilja hann Orra svo að það sé skárra að segja "ég" nokkuð oft í sama textanum, heldur en að segja "mér", "mig" og "mín" mjög oft?

Kannski væri, með hliðsjón af veikindum Orra í bernsku, lag fyrir Björn Bjarnason að reyna að tylla sér á vinstri hliðina, þar sem hann liggur nú fyrir á Landspítalanum, til að læknast af hægrivillu og egósentrisma, - að maður tali nú ekki um gölluðum stíl? Kannski heldur seint í rassinn gripið, eða ættum við heldur að segja brjóstkassann?

Það sem Bjössi kallinn virðist fara í fínu taugarnar á sumu fólki, þannig að það finnur meira að segja hjá sér hvöt til að krítisera það hvernig hann skrifar um veikindi sín og sjúkrahúsvíst. Því nægir víst ekki að vera á móti þeirri utanríkisstefnu sem hann stendur fyrir eða gjörðum hans sem menntamálaráðherra á árum áður. Jahénna.



Engin ummæli: